Gíraffanum Maríusi var lógað í dýragarðinum í Kaupmannahöfn í morgun. Baráttumenn fyrir dýravernd í Danmörku reyndu án árangurs að koma því til leiðar að dýrið fengi að lifa og höfðu mörg þúsund manns skrifað á undirskriftalista í von um að bjarga Maríusi. Tveir dýragarðar, annar í Bretlandi og hinn í Svíþjóð, höfðu boðist til að taka við gíraffanum.
Nýjar reglur Evrópusambandsins, sem miða að því að koma í veg fyrir skyldleikaræktun, eru ástæða þess að dýrið var fellt. Maríus var skotinn með byssu og stendur til að gefa tígrísdýrunum í garðinum kjötið af dýrinu.
Bengt Holst, sem er ábyrgur fyrir velferð dýra í garðinum, segist ekki skilja það uppnám sem hafi orðið út af gíraffanum Maríusi. Á hverju ári séu 700-800 dádýr felld norðan við Kaupmannahöfn, en það sé nauðsynlegt til að stjórna stærð stofnsins. Fáir hafi gert athugasemd við það.
Frétt mbl.is: Vilja bjarga Maríusi.