Seld 11 ára gömul í hjónaband

Sólveig Bjarnadóttir erí stjórn ungliðahreyfingar Amnesty International
Sólveig Bjarnadóttir erí stjórn ungliðahreyfingar Amnesty International Morgunblaðið/Golli

Sólveigu Bjarnadóttir í Ungliðadeild Amnesty Inter­nati­onal er mikið í mun að við beinum sjónum okkar að kyn- og frjósemisréttindum

Um þessar mundir eru mannréttindasamtökin Amnesty International að fara af stað með alþjóðlega herferð sem heitir Minn líkami, mín réttindi. Markmið herferðarinnar er að þrýsta á að kyn- og frjósemisréttindi verði virt sem sjálfsögð mannréttindi alls staðar í heiminum. Mikil áhersla er lögð á sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, þ.e. frelsi til ákvarðanatöku um eigið líf og líkama, og baráttu gegn nauðgunum og kynbundnu ofbeldi. Einnig verður réttindabarátta samkynhneigðra ofarlega í sviðsljósinu, m.a. í ljósi þeirra alvarlegu mannréttindabrota sem nú eiga sér stað í Rússlandi og vegna hörmulegrar löggjafar í Úganda sem kveður á um lífstíðarfangelsi við samkynhneigð.
Ástæða þess að Amnesty International fer af stað með þessa herferð nú er að 20 ár eru liðin frá því að ríki Sameinuðu þjóðanna komu saman og gerðu aðgerðaáætlun til að berjast fyrir kyn- og frjósemisréttindum. Í apríl á þessu ári munu þessi ríki koma aftur saman til að skoða hvað hefur áunnist á þessum tíma. Margir óttast að nú vilji ríkin slaka á í þessari réttindabaráttu en það er enn langt í land og veruleikinn er grimmur.

Seld í ofbeldisfullt hjónaband
Fjölmiðlar flytja okkur stöðugt fréttir af grófum mannréttindabrotum um allan heim. Við heyrum frásagnir af hræðilegu ofbeldi og barnungum stúlkum sem eru seldar í hjónaband. Ein slík er sagan af hinni 11 ára afgönsku Sahar Gul. Fjölskylda hennar seldi hana í hjónaband með þrítugum manni. Sahar lýsir þessu svo: „Ég var lítil og vissi ekkert um hjónaband eða hvað gerist eftir giftinguna. Þegar ég sá konur koma heim til mín til að taka mig á brott grét ég og vildi ekki fara en öllum var sama um tár mín og enginn hlustaði. Ég vildi ekki fara burt og búa hjá öðru fólki, þetta var hræðilegt“.
Stuttu eftir brúðkaupið hvarf Sahar. Foreldrar hennar tilkynntu um hvarfið og lögreglan fann hana nær dauða en lífi, læsta niðri í kjallara hjá tengdafjölskyldu sinni. Litla stelpan var blá og marin, of máttfarin til að standa eða tala. Hún hafði verið lokuð inni í myrkvuðu rými, barin og misnotuð, allt vegna þess að hún hafði neitað að sofa hjá öðrum mönnum. Stelpan hafði verið brennd með sígarettum og járni, fingurneglur hennar rifnar af og hár hennar tætt. Þetta ofbeldi hafði staðið yfir í fjóra til sex mánuði. Sahar hafði náð að tala við nágranna sína og beðið þá um hjálp en lögreglan hunsaði tilkynningar þeirra. Í dag, eftir að vera laus úr prísundinni, býr Sahar í kvennaathvarfi og gengur í skóla. Hennar markmið er að koma í veg fyrir að aðrar stúlkur þurfi að ganga í gegnum það sem hún mátti þola.

Í fangelsi fyrir fóstureyðingu
Sögur sem þessar eru því miður alltof algengar. Barnabrúðkaup og ofbeldi eru mannréttindabrot í sinni verstu mynd, en listinn er lengri. Í Túnis og Alsír geta til dæmis gerendur nauðgana sloppið við dóm með því að giftast fórnarlömbum sínum. Fjölskyldur kvennanna samþykkja þetta oft til að losna undan skömm. Stúlkurnar eru þá neyddar til að giftast kvölurum sínum því heiður fjölskyldunnar er mikilvægari en þeirra líðan.
Alltof víða fá stúlkur og konur engu ráðið um eiginn líkama eða líf. Í Búrkína Fasó hafa konur ekki aðgang að getnaðarvörnum eða heilbrigðisþjónustu nema með samþykki maka og í ekki fjarlægara landi en Írlandi eru fóstureyðingar bannaðar. Skiptir þá engu hvort um sifjaspell eða nauðgun er að ræða. Sú glufa var þó nýlega fest í lög að framkvæma má fóstureyðingu ef um umtalsverða eða raunverulega hættu á lífi móður er að ræða. Lengi vel var þessi réttur ekki skilgreindur í löggjöfinni sem setti heilbrigðisstarfsfólk í mikinn vanda við mat á hvenær mætti framkvæma fóstureyðingu. Vegna ágalla í löggjöfinni hafa því konur sem unnt hefði verið að bjarga látið lífið á meðgöngu. Þess má geta að á Írlandi getur legið 14 ára fangelsisdómur við því að fara í ólöglega fóstureyðingu.

Þörfin er rík
Mannréttindabaráttunni er því hvergi nærri lokið og þess vegna verðum við að leggja okkar af mörkum til að vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem sæta brotum á kyn- og frjósemisréttindum um allan heim. Meginþorri þessara þolenda er ungt fólk.
Í kvöld, fimmtudaginn 6. mars, standa Samtökin 78 og Amnesty International fyrir stórtónleikum í Hörpu til styrktar baráttusamtökum samkynhneigðra í Úganda. Einnig verður ungliðahreyfing Amnesty með viðburð og undirskriftasöfnun í Kringlunni nú á laugardaginn, frá 13-17. Við hvetjum sem flesta til að mæta og láta gott af sér leiða. Þörfin er sannarlega til staðar.

Amnesty vill sporna við giftingu barna
Margar stúlkur eru látnar giftast eldri mönnum
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú er rómantísk manneskja og í dag verður þessi eiginleiki þinn áberandi. Sögur, slúður og dramatík gera vart við sig í fjölskyldulífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Sarah Morgan
3
Jenny Colgan
4
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú er rómantísk manneskja og í dag verður þessi eiginleiki þinn áberandi. Sögur, slúður og dramatík gera vart við sig í fjölskyldulífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Sarah Morgan
3
Jenny Colgan
4
Sofia Rutbäck Eriksson
Loka