Skiptir litur máli?

Ein skærasta stjarnan í kvikmyndaheiminum í dag er frá Kenía, Lupita Nyong'o, en hún hlaut á sunnudag Óskarsverðlaunin fyrir leik í aukahlutverki fyrir hlutverk Patsey í myndinni 12 Years A Slave.

Leikkonan er með tvöfaldan ríkisborgararétt, kenískan og mexíkóskan, þar sem hún fæddist í Mexíkó fyrir 31 ári. Myndin er hennar fyrsta í kvikmynd í fullri lengd og gefur fyrirheit um að hún eigi eftir að sjást oft á hvíta tjaldinu á næstu árum.

Nyong'o fékk einnig Screen Actors Guild- og Critics' Choice-verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni en þar fer hún með hlutverk ambáttar sem er beitt skelfilegu ofbeldi af hálfu eiganda síns sem Michael Fassbender leikur.

Þegar hún tók við verðlaununum á sunnudagskvöldið sagði hún að styttan minnti hana á að öll börn, sama hvaðan þau væru, ættu rétt á að eiga sér drauma. Hún tárfelldi þegar hún þakkaði leikstjóra myndarinnar, Steve McQeen, fyrir að hafa valið sig og að vinnan við myndina væri það skemmtilegasta sem hún hefði gert um ævina.

Dóttir stjórnmálamanns

Lupita Amondi Nyong'o fæddist hinn 1. mars 1983 í Mexíkóborg þar sem faðir hennar var prófessor í stjórnmálafræði. Nyong'o ólst hins vegar upp í Kenía ásamt foreldrum og fimm systkinum. Faðir hennar var heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Kenía um tíma og hefur verið áberandi í stjórnmálalífi landsins áratugum saman.

Fjölskyldan stóð alltaf við bakið á henni og að sögn föður hennar, Peters Anyang' Nyong'o, var Lupita ekki há í loftinu þegar hún byrjaði með sýningahald, hvort sem það var fyrir krakkana í skólanum eða heima við. „Hún var alltaf með svo frjótt ímyndunarafl og skapandi,“ segir hann í viðtali við dagblað í Kenía fyrr á árinu.

Nyong'o-fjölskyldan sinnti menningarlífinu í Kenía vel og Lupita fór mjög oft í leikhús með foreldrum sínum og systkinum. Eins tók hún þátt í skólaleikritum frá unga aldri en hennar fyrsta hlutverk var í Oliver Twist.

Þegar hún var sextán ára sendu foreldrar hennar hana til Mexíkó í sjö mánuði að læra spænsku en þar bjó hún í Taxaco í Guerrero-ríki og sótti spænskutíma í Universidad Nacional Autónoma de México's. Hún fór síðar í háskólanám í Bandaríkjunum, fyrst Hampshire College í Massachusetts og síðar nam hún við Yale-háskólann en hún er búsett í Bandaríkjunum. Hún talar reiprennandi fjögur tungumál, móðurmál sitt, Luo, ensku, svahíli og spænsku.

Of falleg fyrir hlutverkið

Hún vann við gerð kvikmyndarinnar The Constant Gardener árið 2005 og fékk við það enn meiri áhuga á að gera leiklist að ævistarfinu. Leikarinn Ralph Fiennes sagði henni hins vegar að hún ætti að láta leiklistina vera nema hún gæti ekki lifað án hennar. „Þetta var kannski ekki það sem ég vildi heyra en þetta var það sem ég þurfti að heyra,“ sagði hún nýverið í viðtali við Arise Entertainment.

Gæfan var með henni strax í fyrsta alvöruhlutverkinu en leikstjóri 12 Years a Slave, Steve McQueen, var hins vegar ekki viss um hvort hún hentaði í hlutverkið vegna fegurðar hennar.

Gagnrýnendur hafa hins vegar fallið kylliflatir fyrir frammistöðu hennar í myndinni og þykir leikur hennar afar sannfærandi. Hún segir að þar skipti miklu samstarf leikara og tiltekur þar Fassbender sérstaklega.

Dreymdi um föla ásjónu

Hún rifjaði upp í þakkarræðu nýverið þann tíma er hún var barn og kveikti á sjónvarpinu og sá einungis fólk ljóst á hörund. „Mér var strítt á því hversu dökk húð mín var og mín eina bæn til Guðs, kraftaverkamannsins, var að ég myndi vakna ljós á hörund,“ sagði Nyong'o er hún ávarpaði gesti í boði á vegum Essence-tímaritsins þar sem hún tók við viðurkenningu fyrir leik sinn.

„Þegar nýr dagur rann upp var ég svo spennt að sjá nýju húðina mína að ég lét það ekki eftir mér að líta á líkama minn áður en ég komst að speglinum. Því það fyrsta sem ég vildi sjá var mín föla ásjóna. Á hverjum degi upplifði ég sömu vonbrigðin – ég var alveg jafnsvört og ég hafði verið daginn áður,“ sagði Nyong'o enn fremur.

„Ég reyndi jafnvel að semja við Guð. Ég sagði honum að ég myndi hætta að stela sykurmolum á nóttunni ef hann uppfyllti ósk mína. Ég myndi alltaf hlýða móður minni, hverju orði, og myndi aldrei týna skólapeysunni minni framar – bara ef hann gerði mig aðeins ljósari á hörund. En ég held að Guði hafi ekki þótt mikið til um tilboð mitt þar sem ég var aldrei hvít þegar ég vaknaði.“

Varir Öskubuskuævintýrið að eilífu?

Þegar erlendir fjölmiðlar eru skoðaðir um þessar mundir er nafn Nyong'o að finna alls staðar. Eða eins og pistlahöfundur CNN segir – varir Öskubuskuævintýrið að eilífu?

Allir dásama fegurð hennar og fatasmekk og augljóst að Öskubuskuævintýrið er ekki á enda hjá henni á næstunni. Hún sýndi það í leiklistarnáminu að henni er full alvara og segja skólasystkini hennar þaðan að hún hafi alltaf verið tilbúin til þess að leggja meira á sig til að ná árangri en flestir aðrir.

Nyong'o hefur orðið tíðrætt um litaraft sitt í ræðum og riti og það hvað húðlitur getur haft mikil áhrif þegar kemur að því að komast áfram í heimi leiklistarinnar. Kenískur starfsbróðir hennar segir í viðtali við AFP-fréttastofuna að leikkonan hafi verið svartsýn á starfsmöguleika sína í Bandaríkjunum. Nóg væri af leikkonum þar og leikurum. Eins væri hún svo dökk á hörund, með stutt hár, kenískan hreim - svo ekki sé talað um nafn hennar.

„Nee-Yongo.“ „En-Yong-Go.“ „Nwon-go.“ „Nye-ongo.“ Enginn virðist geta borið nafn hennar rétt fram á rauða dreglinum, skrifar blaðamaður Guardian.

Hvað er þetta með Prada?

Þrátt fyrir að 12 Years a Slave sé fyrsta Hollywood-kvikmynd Nyong'o er hún enginn krakki heldur 31 árs gömul kona, mjög hæfileikarík og með reynslu og menntun á sviði leiklistar og kvikmyndagerðar. Sjálfstraustið skín af henni, ræður hennar eru framúrskarandi svo ekki sé minnst á ummæli hennar í fjölmiðlum.

Þegar hún mætti rauða dregilinn á sunnudagskvöldið var hún klædd bláum kjól, með hárband skreytt gulli og demöntum og með hring með froski á á litla fingri. Þegar hún var spurð út í föt og skart sagði hún að hringurinn væri ættargripur og kjóllinn frá Prada. „Og hann var gerður fyrir mig,“ bætti leikkonan við.

Kannski ekki stórmál að þekkt tískuhús hanni kjól handa einni skærustu stjörnu Hollywood um þessar mundir en að það skuli vera Prada segir meira en mörg orð um vonandi breytta afstöðu hjá tískuhúsinu, sem er nánast einvörðungu með hvítar fyrirsætur á sínum snærum. Í fyrra réð Prada til sín hörundsdökka fyrirsætu, þá fyrstu í nítján ár, eða frá því Naomi Campbell steig síðast á tískupalla Prada árið 1994.

Sérfræðingar í fatnaði fræga fólksins telja að Lupita Nyong'o hafi verið best klædda konan á Óskarsverðlaunahátíðinni; ísblár síðkjóll en liturinn minnir leikkonuna á höfuðborg heimalandsins, Naíróbí.

Er Nyong'o hin nýja Meryl Streep?

Áhugafólk um kvikmyndir veltir nú vöngum yfir hvað sé framundan hjá leikkonunni. Er hún ný Meryl Streep kvikmyndanna? Eða eins og blaðamaður Guardian orðar það: Hún á það svo skilið og ekki síður við sem horfum á kvikmyndir. En það getur hins vegar verið aðeins grýttari leið fyrir hana á toppinn en fyrir Streep á sínum tíma. Hver svo sem skýringin er á því, nú rúmum tvö hundruð árum eftir að þrælahald var bannað með lögum í Bandaríkjunum.

„Ég tileinka þessi verðlaun öllum þeim hafa þurft að þola þrælahald og öllum þeim, 21 milljón talsins, sem eru í ánauð í dag,“ sagði breski leikstjórinn Steve McQueen er hann tók við Óskarsverðlaunum fyrir bestu mynd ársins, 12 Years a Slave.

Myndina sem skaut Lupitu Nyong'o á stjörnuhimininn og um leið fyrstu óskarsverðlaunamyndina í sögunni sem blökkumaður leikstýrir.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar