Barátta tónlistarmannsins Kanyes Wests fyrir því að koma unnustu sinni Kim Kardashian á forsíðu Vogue bar loks árangur þar sem þau skötuhjú eru á forsíðu aprílblaðsins á mynd sem Annie Leibovitz tók.
Þau eru afar ánægð með myndina en þar sést West halda utan um Kardashian sem er í brúðarkjól. Hún skrifar á Twitter og Instagram að þetta sé eins og draumur sem verði að veruleika og West þakkar Vogue fyrir í færslu á Twitter.
West hefur sagt að hann telji að Kardashian eigi skilið að vera forsíðustúlka því í útvarpsviðtali í október sagði hann að það væri ekkert sem mælti gegn því að hún yrði á forsíðu Vogue. Hún hefði meiri áhrif en forsetafrúin Michelle Obama þegar kæmi að fatavali svo fátt eitt sé nefnt, samkvæmt frétt sem Fox birtir.