Herferðin „Ekki láta Rússa fá það“ ryður sér nú til rúms á samfélagsmiðlum en óljóst er hvort hún er byggð á hugsjón eða húmor. Plakat sem sýnir tvær hendur mynda form sem ætlað er að minna á sköp kvenna gengur manna á milli á veraldarvefnum og hefur því einnig verið splæst á gamlar myndir af kvenkyns leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Rússlandi.
Slagorðið kemur úr 20. aldar kveðskap eftir úkraínska ljóðskáldið Taras Shevchenko sem hvatti ungar konur til þess að verða ástfangnar en ekki af Rússum. Herferðin er sögð vera hluti af stærra átaki sem hvetur fólk til að sniðganga rússneskar vörur í mótmælaskyni við veru rússneska hersins á Krímskaga. Herferðin sem slík kallar reyndar ekki eftir því að vörur séu sniðgengnar heldur öllu heldur rússnesk kynfæri og að því er virðist sérstaklega kynfæri karlmanna, ef einhver skyldi vera í vafa um meiningu slagorðsins.
Það er alls ekki óþekkt að kynlíf sé sniðgengið af stórum hópum í mótmælaskyni en fyrsta hugmyndin um kynlífsbann kemur fram í forn-gríska gamanleiknum Lýsiströtu. Lýsistrata hefur síðan blásið konum í Kólumbíu og Líberíu byltingaranda í brjóst auk þess sem úkraínsku kvenréttindasamtökin FEMEN kölluðu eftir viðlíka viðbrögðum meðal þjóðarinnar við nýjum lögum sem þóttu vega að kvenfrelsi.