Ljóst er að almenningur vestan hafs er felmtri sleginn yfir fréttunum að hjónin Gwyneth Paltrow og Chris Martin ætli að skilja. Mikil aðsókn var á síðu Paltrow eftir að tilkynning um skilnaðinn var birt og á tímabili lá hún niðri vegna álags.
Paltrow og Martin hafa verið par frá árinu 2002 en þau giftust í fámennri athöfn í desember 2003. Saman eiga þau tvö börn, Apple Blythe Alison Martin og Moses Bruce Anthony Martin sem eru níu og sjö ára.
Kynni tókust með þeim Martin, 37 ára, og Paltrow, 41 árs, skömmu eftir andlát föður Paltrow. Talið er að Martin hafi samið lagið Fix You um hana en Paltrow var mjög náin föður sínum og tók andlát hans afar nærri sér en Chris er sagður hafa aðstoðað hana í gegnum þá erfiðleika. Parið flutti til Los Angeles á síðasta ári en fram að því höfðu þau haft fasta búsetu í London.
Nánari en nokkru sinni fyrr
Í tilkynningu frá Gwyneth Paltrow sem birt var á heimasíðu hennar Goop segir:
„Við höfum lagt hart að okkur undanfarið ár. Stundum saman og stundum hvort í sínu lagi til þess að sjá hvaða möguleika við eigum saman. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að betra sé að vera hvort í sínu lagi þrátt fyrir að við elskum hvort annað afar mikið. Við erum og verðum alltaf fjölskylda og á margan hátt erum við nánari en nokkru sinni fyrr. Við erum fyrst og fremst foreldrar tveggja yndislegra barna og þeirra vegna biðjum við um svigrúm og að einkalíf okkar verði virt á þessum erfiðu tímum. Við höfum alltaf haldið sambandi okkar fyrir utan sviðsljós fjölmiðla og vonum að svo verði áfram.“
Tilkynningunni fylgdi einnig mynd af parinu sem og ráð um hjónaband, skilnað á andlegu nótunum frá tveimur læknum. Þar segja læknarnir Sadeghi og Sami að skilnaðir séu erfiðir fyrir alla aðila.
Orðrómur um framhjáhald
Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá þeim hjónum en hávær orðrómur hefur verið um framhjáhald. Í október síðastliðnum neyddist Paltrow til þess að neita sögusögnum um framhjáhald sitt með milljónamæringnum Jeff Soffer sem áður var kvæntur ofurfyrirsætunni Elle Macpherson. Til stóð að birta ítarlega grein um leikkonuna í tímaritinu Vanity Fair þar sem samband þeirra yrði dregið fram í dagsljósið og var fyrirhuguð birting greinarinnar leikkonunni þvert um geð. Talsmaður leikkonunnar vísaði á bug öllum sögusögnum um þau og sagði þau einungis vera góða vini. Síðar þurfti hún einnig að vísa á bug ásökunum um framhjáhald með lögmanninum Kevin Yorn.
Árið 2011 sagði Paltrow í viðtali að þrátt fyrir að hún væri mjög rómantísk í eðli sínu væri hún einnig raunsæismanneskja. „Lífið er bæði langt og flókið. Ég veit um fólk sem ég virði og lít upp til sem heldur framhjá hvort öðru.“
Missti fóstur
Þá greindi hún einnig frá því í viðtali við tímaritið People að þau hefðu reynt að eignast þriðja barnið en hún misst fóstur þegar hún var langt gengin með það. „Það var skelfileg reynsla. Það gerðist mjög óvænt og seint. Lengi vel átti ég erfitt með að skilja af hverju fósturmissirinn átti sér stað. Ég hugsaði með mér: „Ég trúi ekki að ég sé ekki ólétt. Ég var komin yfir fyrsta þriðjung meðgöngunnar og var í huganum búin að koma fyrir þremur bílstólum í bílinn. Enn þann dag í dag finn ég til saknaðar. En þetta átti ekki að verða og maður verður að treysta æðri máttarvöldum. Þá áttaði ég mig á hversu lánsöm ég er að eiga tvö heilbrigð börn,“ sagði Paltrow.
Í ljósi þessara upplýsinga hafa erlendir fjölmiðlar spurt sig hvort samband þeirra hafi staðist álagið að undanförnu.
Hvernig verður skilnaðinum háttað?
Þá er spurning hvernig auðæfum þeirra verður skipt en saman eru þau talin eiga um 147 milljónir dollara. Auk þess gæti verið erfitt fyrir þau að komast að samkomulagi um forræði barnanna en Martin er sagður vilja flytja aftur til Bretlands þegar skólaárinu lýkur.
Ferill Paltrow ekki í sömu hæðum og áður
Paltrow var áður trúlofuð leikaranum Brad Pitt auk þess sem hún átti í ástarsambandi við Ben Affleck. Foreldrar Paltrow eru Bruce Paltrow, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri, og Blythe Danner leikkona. Paltrow hefur átt farsælan kvikmyndaferil en hún lék til dæmis í Emmu sem byggð var á sögu Jane Austin og hlaut mikið lof fyrir. Hápunktur ferils hennar fram að þessu var þegar hún hreppti óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki í myndinni Shakespeare In Love. Paltrow hefur haft í nógu að snúast upp á síðkastið þó svo að frami hennar hafi ekki náð fyrri hæðum. Hún hefur átt góða spretti í ofurhetjumyndunum Iron Man auk þess sem hún hefur gefið út matreiðslubækur.
Þetta verður hins vegar annasamt ár hjá Martin þar sem Coldplay stefnir á útgáfu sjöttu breiðskífu sinnar í maí sem mun bera nafnið Ghost Stories.