Gwyneth Paltrow og Chris Martin hafa flúið til Bahamaeyja með börnum sínum á meðan helsta fjölmiðlafárið yfir skilnað þeirra gengur yfir.
Eftir að tilkynningin um skilnaðinn birtist fóru þau saman út að borða en þeim er annt um að skilja á vinalegum nótum og er sameiginlegt frí þeirra liður í því ferli.
Fjölskylda Martins hefur látið hafa eftir sér að þau beri ekki kala í garð Paltrow. Bróðir Martins sagði að Martin liði vel. „Ég elska þau bæði og okkur semur öllum vel. Ég ber ekki kala til hennar en við bræður erum mjög nánir,“ sagði Alex, yngri bróðir Martins.
Margar sögur hafa birst í erlendum fjölmiðlum um orsakir skilnaðarins. Talið er að Kabbalah-trú Paltrow hafi farið fyrir brjóstið á Martin en hún tók upp Kabbalah árið 2009 og hefur trúin verið þrætuepli þeirra hjóna síðan þá. Að sögn heimildamanns fannst Martin hún ekki lengur vera sú kona sem hann varð ástfanginn af.
Síðustu ár hafa þau búið hvort í sínu lagi og sagt er að Martin hafi haldið til síðasta ár í íbúð Guys Berrymans sem er með honum í Coldplay.