Sara Pétursdóttir, 17 ára hársnyrtinemi í Tækniskólanum, sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi. Hún flutti lag Bobs Dylans „To Make You Feel My Love“ sem margir þekkja einnig í flutningi söngkonunnar Adele. Keppnin fór fram í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
„Þetta var yndislegt,“ segir Sara í samtali við blaðamann mbl.is. Hún segir að sigurinn hafi komið á óvart. „Ég var lítið að spá í úrslitin, ég vildi bara koma laginu frá mér eins og ég vildi.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sara lætur reyna á raddböndin. „Ég hef sungið frá því ég var lítil, byrjaði í söngkennslu í fyrsta skipti í febrúar. Fjölskyldan er öll í tónlistinni og pabbi hefur kennt mér,“ segir hún. „Pabbi var rosalega ánægður.“ Faðir Söru er Pétur Hrafnsson söngvari.
Af hverju valdir þú þetta lag? „Ég hef sungið þetta lag síðan ég var ung, finnst það fallegt og henta röddinni minni. Mér fannst ég geta túlkað það á ákveðinn hátt,“ segir Sara.
Sara segir að flutningurinn hafi verið góð upplifun en hún hafi verið stressuð til að byrja með. „Síðan reyndi ég bara að njóta stundarinnar og njóta þess að syngja,“ segir hún.
Framundan er vinna í hljóðveri þar sem hún mun taka upp lagið og stefnir Sara á að koma laginu í spilun á útvarpsstöðvum. Hún segir að síminn hafi ekki stoppað síðan sigurinn var í höfn. „Mér finnst þetta voða skemmtilegt.“
Á morgun hefst kennsla í framhaldsskólum eftir þriggja vikna verkfall. „Ég er búin að hlakka mikið til að byrja aftur,“ segir Sara að lokum.
Ekki er langt síðan Tækniskólinn fór með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna, en árið 2012 sigraði kór Stýrimannaskólans. Kórinn flutti lagið Stolt siglir fleyið mitt eftir Gylfa Ægisson.
Frétt mbl.is: Sara vann fyrir hönd Tækniskólans.