Margir eru eflaust orðnir langeygir eftir sumrinu en þó svo að enn sé nokkuð í sól og sumaryl er undirbúningur fyrir stærstu hátíð sumarsins kominn nokkuð á veg.
Þjóðhátíð í Eyjum fer fram dagana 1.-3.ágúst og í ár fagnar hátíðin 140 ára afmæli sínu. Í dag kynnti Þjóðhátíðarnefnd fyrstu tónlistarmennina sem koma fram á hátíðinni en það eru Mammút, Kaleo og Skítamórall. Skítamórall hefur marg oft heiðrað dalinn með nærveru sinni en þetta er í fyrsta skipti sem Mammút og Kaleo koma þar fram. Mammút sópaði til sín verðlaunum á Íslensku tónlistarverðlaununum og það sama gerði Kaleo á Hlustendaverðlaunum Bylgjunnar, FM957 og X-ins977. Skítamóralsmenn munu dusta rykið af gömlum töktum en þeir eiga einnig nýtt lag í spilun sem þeir unnu með Loga Pedro úr Retro Stefson & Highlands.
Í tilkynningu frá Þjóðhátíðarnefnd segir að í tilefni 140 ára afmælisins verði dagskráin með glæsilegasta móti eins og landsmenn munu fá að sjá á næstu vikum. Forsala miða hefst mánudaginn 14. apríl á dalurinn.is en sala á farmiðum í Herjólf yfir þjóðhátíðarvikuna hefst sama dag kl. 9.