Bandaríski kvikmyndaleikarinn George Clooney er trúlofaður. Hann trúlofaðist unnustu sinni Amal Alamuddin fyrir skömmu en hún er breskur lögfræðingur. Frá þessu er greint í frétt AFP og vísað í tímaritið People.
Fram kemur í tímaritinu að skötuhjúin hafi ekki viljað vera að auglýsa trúlofunina en hafi heldur ekki verið að fela hana. Vísað er í ónafngreindan heimildarmann sem þekki til málsins. Haft er eftir honum að ekki sé langt síðan trúlofunin átti sér stað og fyrir vikið sé ólíklegt að neinar ákvarðanir liggi fyrir um brúðkaup enn.
Haft er eftir öðrum ónafngreindum heimildarmanni að Clooney og Alamuddin hafi sést á veitingahúsi í Los Angeles í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag ásamt fyrirsætunni Cindy Crawford og eiginmanni hennar. Alamuddin hafi verið með „stærðarinnar hring“.
Þá er rifjað upp að Clooney, sem er 52 ára að aldri, hafi átt margar kærustur undanfarin ár en ekki sýnt því mikinn áhuga á að ganga í það heilaga. Alamuddin er 36 ára að aldri, lögfræðingur sem fyrr segir og sérhæfir sig í alþjóðalögum og mannréttindum. Clooney hafi einmitt sýnt mannréttindamálum mikinn áhuga.