Á föstudaginn fékkst loks framkvæmdaheimild frá Reykjavíkurborg fyrir sólstöðu tónlistarhátíðinni Secret Solstice. Þetta tilkynnti Jakob Frímann Magnússon í upphafi blaðamannafundar um hátíðina í dag en hann sagði regluverkið sem aðstandendur hátíðarinnar þurftu að komast í gegnum hafa verið tyrfnari frumskóg en þá hafi órað fyrir. Þrátt fyrir orðróm um að hátíðin yrði blásin af segir Jakob Frímann að aldrei hafi verið hætta á slíku en framkvæmdir við tónleikasvæðið munu hefjast í næstu viku.
Jakob Frímann titlar sig sem hjálparhellu Secret Solstice en framkvæmdastjóri hátíðarinnar er Friðrik Ólafsson. Friðrik segir að framkvæmdaleyfið hafi borist svo seint þar sem upphaflega hafi verið gerður samningur við Þrótt sem umsjónaraðila svæðisins en að vegna umfangs viðburðarins hafi komið í ljós að Reykjavíkurborg þyrfti að vera með í ráðum.
Aðstandendur hátíðarinnar eru hvergi bangnir þó svo að leyfið hafi tekið langan tíma og hafa gert samning við Þrótt um leigu á svæðinu til næstu fimm ára. „Með því að bæta aðstöðuna á tjaldsvæðinu mætti koma mun fleira fólki fyrir en það tekur 1600 manns í dag. Hátíðin mun geta vaxið og við gerum ráð fyrir fleiri gestum á næstu árum,“ segir Friðrik.
Hátíðin hefur þegar fengið nokkra umfjöllun víða erlendis, þar á meðal í Time, Vogue og The Guardian. Friðrik segir að hátíðin sé unnin mikið eftir erlendum fyrirmyndum en meðal annars fengið aðstoð frá einum af skipuleggjendum Glastonbury hátíðarinnar. Einnig nefnir hann að svokallaðir „tokens“ muni leysa reiðufé af á hátíðinni vegna umfangs hennar en að einnig verði þó hægt að nota kort til að greiða fyrir veigar og vörur.
Þegar hafa um 1500 erlendir ferðamenn tryggt sér miða samkvæmt Friðriki og af þeim 350 sjálfboðaliðum sem munu koma að hátíðinni eru 150 erlendis frá. „Það verða um 450 manns að vinna á svæðinu dag hvern,“ segir Friðrik og bætir við að þegar hljómsveitirnar og fylgifiskar þeirra séu teknar í reikninginn geri hann ráð fyrir að um 3000 útlendingar muni taka þátt í hátíðinni.
Hátíðarsvæðið sjálft mun taka um 16 þúsund manns en einungis verða seldir um 9 þúsund miðar á hátíðina. Umgjörðin sjálf segja aðstandendur að verði hin glæsilegasta en um 30 listamenn og sjálfboðaliðar hafa komið að hönnun sviðsmynda sem munu vera í anda norrænnar goðafræði. Öll svið hátíðarinnar hafa einmitt fengið nöfn úr norrænni goðafræði en þar á meðal er Skautahöllin sem mun að sjálfsögðu heita Hel á meðan á hátíðinni stendur en gólf verður lagt yfir ísinn svo enginn fari sér að voða.
Miðasala er í fullum gangi á secretsolstice.is og í Lucky Records. 18 ára aldurstakmark er inn nema í fylgd með fullorðnum og munu börn undir átta ára aldri fá ókeypis aðgang.