Ýr Jóhannsdóttir afar áhugaverður ungur hönnuður í skapandi sumarstarfi hjá Kópavogsbæ í sumar en hún hannar og prjónar flíkur undir nafninu Ýrúrarí. Fyrsta verkefni hennar í sumar var að hanna peysur á rappdúóið Hljómsveitt en áður hefur hún meðal annars hannað brúðarsamfesting á Sölku Valsdóttur meðlim Reykjavíkurdætra og hannað svokallaðar gubbupeysur.
„Ég hef mjög gaman af bulli og ég held að það sé mest lýsandi fyrir minn stíl, svona skemmtilegt bull,“ segir Ýr en fyrir henni er fyndnin allsráðandi þó svo að hún segi að líklega sé hægt að finna dýpri merkingu í fötunum. „Megin markmið alls þess sem ég er búin að vera að búa til er að gera umhverfið aðeins skemmtilegra. Það er það frábærasta við að búa til föt er að þau færast úr stað og allir sjá þau, það er gott tækifæri til að dreifa allskonar bulli og gleði,“ segir Ýr.
Ýr er með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og í fyrra nam hún textíl- og fatahönnun við danskan lýðháskóla. Hún segist hafa haft áhuga á handavinnu frá unga aldri en að hann hafi aukist til muna fyrir tveimur árum þegar hún tók upp prjónana til að sitja ekki auðum höndum yfir sjónvarpinu. „Þá uppgötvaði ég hvað það er ótrúlega róandi að prjóna og gaman að sjá mann breyta einhverju jafn einföldu og garni í heila flík. Svona eins og í sögunni af Jesú sem breytti vatni í vín, honum hefur líklega liðið svipað vel við það verkefni .“
Ýr segir verkefni sumarsins flest verða í peysufromi en að hún sé enn að velja það sem næst verður tekið út úr hugmyndabankanum. Meðal þeirra hannanna Ýrar sem vakið hafa hvað mesta athygli eru peysur sem skarta opnum munnum með marglituðu ullargubbi. Ýr segist upprunalega hafa hannað peysur með augum og munnum en fundist vanta meira fjör og að gubb hafi verið sjálfsögð viðbót til að hressa upp á verkið. „Sumu fólki finnst hugmyndin kannski furðuleg, ég sendi til dæmis inn ullarpeysu með ælandi brjóstum á í fatahönnunarkeppni Trendnet fyrir RFF. Peysan komst ekki einu sinni áfram í úrslit, fólkið sem dæmdi það er líklega ekki komin á sama stig í tísku og ég, þau munu átta sig á mistökunum í framtíðinni þegar allir eiga gubbupeysu,“ segir Ýr glettnislega.
Peysurnar sem hljómsveitin Hljómsveitt fékk í sinn hlut eru sérhannaðar en hugmyndina að peysunum fékk Ýr þegar hún spilaði á franskt horn með þeim á tónleikum síðasta sumar. „Peysurnar voru gerðar út frá laginu „Kynþokkafull“, en þá notaði ég gamla hugmynd út frá konukjólum sem ég hafði búið til. Konukjólarnir voru með handsaumuðum brjóstum og píkuhárum. Fyrir Hljómsveitt tók ég kjólana á næsta stig og bætti við mikið af hárum og snéri annarri á hvolf svo sköpin enduðu á hálsmálinu.“
Brúðarsamfesting Sölku í Reykjavíkurdætrum bauðst Ýr til að hanna sama kvöld og henni var boðið í brúðkaupið en í veislunni var samfestinga og loð þema. „Salka var mjög hrifin af brjóstagubb peysunni og var til í einhverja svoleiðis hugmynd. Mér fannst ekki alveg passa að hafa gubb á brúðarklæðunum svo mér fannst meira viðeigandi að setja augu á brjóstin,“ segir Ýr.
Samfestinginn gerði Ýr á prjónavélina sína frá 1990 og hún bjó sjálf til sniðið á staðnum. Hún handsaumaði augun og prónaði lituðu franskarnar eða gubbusletturnar sem skreyta samfestinginn og slör spöngina sem Salka hafði á höfði sér. „Það fór mjög mikil vinna í þetta verkefni og það var ekkert smá gaman að fá að gera brúðarklæði og sjá Sölku klædda í flík eftir mig á svona stórum degi.“
Ýr segist vonast til að geta unnið að öðrum verkefnum meðfram skapandi sumarstörfunum og jafnvel opnað netverslun í haust. Hún segist hafa fengið mikið af beiðnum undanfarið sem seinlegt sé að vinna úr enda sjái hún ein um alla framleiðslu. „En það er alveg frábært hvað viðtökurnar eru góðar og fólk sé svona til í að klæðast gubbu eða brjósta og píku fötum.“
Hægt er að fylgjast með Ýr á heimasíðunni yrurari.com og á Facebook.