Stuttu eftir að skilnaður þeirra Robin Thicke og Paula Patton var tilkynntur í mars lýsti Thicke því yfir að hann myndi reyna að ná Patton aftur. Óhætt er að segja að Thicke hafi meint það en nú hefur hann gefið út lagið „Get Her Back“ sem er um fyrrum eiginkonu kappans. Í myndbandinu við lagið, sem er frekar dramatískt, sést Thicke blóðugur og grátandi syngja til Patton. Jafnframt sést í konu sem líkist Patton og reglulega birtast smáskilaboð sem eiga að vera alvöru skilaboð á milli fyrrum hjónanna.
Í skilaboðunum sem birtast í myndbandinu koma upp setningar eins og „Þú drekkur of mikið,“ og „Þú ert mér til skammar,“sem eiga þá að vera frá Patton til Thicke.
Lagið og myndbandið er ekki eini liðurinn í áætlun Thicke um að ná konu sinni aftur, en nýjasta plata söngvarans heitir einfaldlega „Paula“ og á víst að vera öll um fyrrum konu söngvarans. Ekki er þó vitað hversu vel það fór í Patton að sjá hennar persónulegu smáskilaboð í myndbandinu fyrir alla að sjá.
Myndbandið má sjá hér að neðan.