Önnur harmsaga úr lífi Huldu

Hulda Hvönn læstist úti sem unglingur með kostulegum afleiðingum.
Hulda Hvönn læstist úti sem unglingur með kostulegum afleiðingum. Morgunblaðið/Golli

Monitor-penninn Hulda Hvönn hefur gengið í gegnum ýmislegt á stuttri ævi en harmsagan sem hér fylgir er hinsvegar ótrúlega fyndin eftir á og vafalaust eru margir sem hafa upplifað svipaða hluti á unglingsárunum.

Ég húkti út í bíl um daginn í grenjandi rigningu og stumraði yfir símanum mínum. Húsið mitt aðeins örfáa metra í burtu með öllum sínum munaði: smart-sjónvarpi sem enginn á heimilinu er nógu tæknivæddur til að kunna á, klósetti sem hægt er að sturta niður, hálffullum ísskáp og að minnsta kosti fimmtán stöðum til að fleygja sér á í blund. Af hverju húkti ég þá úti í smábílnum mínum? Það var svo sem hversdagslegasta ástæða fyrir mér, gallinn var sá að lyklarnir að blessuðu húsinu voru inni og harðlæstir þar. Ég var sum sé læst úti. Eitthvað sem gerist um það bil sexhundruð sinnum á ári.

Ég er orðin ansi fim í að redda mér inn með einum eða öðrum hætti og jafnvel velt fyrir mér starfsferli sem innbrotsþjófur. Mér varð hugsað til þess þar sem ég sat inni í bílnum og vorkenndi sjálfri mér að þetta hafði nú oft verið verra. Ég má til með að segja frá einu atviki sem kom fyrir mig þegar ég var um það bil 16 ára menntaskólamær og stundaði þá nám mitt við hinn víðkunna MR.

Á skíðaúlpu og sokkabuxum

Ég var sérstaklega félagsfælin á þessum tíma, ég hafði ekki nokkurn áhuga á að mæta á viðburði í skólanum en lét þó oft draga mig á böll, þá annaðhvort af vinum mínum eða af minni eigin samvisku sem virtist sannfærð um að það væri það eina rétta að gera fyrir 16 ára ungling. Það gerðist svo eitt kvöldið að ég kom heim af balli, lyklalaus sem fyrr, og allir á heimilinu farnir að sofa. Fjölskyldumeðlimir voru orðnir langþreyttir á því að ég væri að dingla bjöllum um miðjar nætur – vakti bæði börn og gæludýr og jafnvel grunlausa nágranna.

Ég sniglaðist því í kringum húsið á háhæluðu skónum og ballkjólnum í leit að glugga sem ég gæti skriðið inn um. Allt var lokað og læst, eins og ég hafði nú svo sem búist við. Ég var harðákveðin í því að ég skyldi komast inn án þess að þurfa að vekja nokkurn mann. Ég var búin að brjóta heilann um þetta í nokkra stund þegar ég áttaði mig á því að herbergið mitt lá að svölum sem ég átti það gjarnan til að opna til að lofta út inni hjá mér og gleymdi svo oftar en ekki að læsa á eftir mér (óvani sem er sem betur fer úr sögunni hjá mér). Mér þótti ég snjöll að hafa komist að þessu en hvernig ég kæmist upp á svalirnar var vandamál út af fyrir sig. Ég hef alltaf verið frekar lofthrædd en þetta kvöld skyldi ég horfast í augu við ótta minn.

Ég komst með einhverjum ósköpum inn í bílskúrinn og gíraði mig þar upp, klæddi mig úr kjólnum og skónum og fann mér gamla sægræna og fjólubláa 80's skíðaúlpu til að skýla mér frá næturgolunni og risavaxna gönguskó mér til halds og trausts. Ég dröslaði svo þeim stærsta stiga sem ég fann út í garð, í skíðaúlpu, sokkabuxum og gönguskóm í stærð 43 einum fata. Varlega lagði ég stigann upp að svölunum í bakgarðinum og hægt og rólega fikraði ég mig upp á við.

Að lokum náði ég svölunum og lét mig rúlla yfir handriðið. Ég stóð upp og fagnaði hljóðlega til að vekja nú örugglega engan. Sigurviss ætlaði ég mér að labba inn í herbergið mitt en ... hvað var þetta? Ég tók í hurðarúninn einu sinni enn til að vera viss. Jú, það var ekki um að villast, fjandans hurðin var læst. Af öllum dögum ársins ákvað ég loksins að læra að muna að læsa hurðinni á eftir mér akkúrat þennan dag. Ég bölvaði hurðinni í sand og ösku og ætlaði mér að klifra aftur niður stigann. Ég áttaði mig þó fljótlega á því að ég kæmist ekki sömu leið niður og ég fór upp þar sem stiginn var svo valtur að það var ekki nokkur möguleiki að ég gæti rúllað mér aftur yfir handriðið og lent á stigaskrattanum án þess að hann ylti um koll.

Lengi getur vont versnað

Ég gafst upp og settist fúl niður á svalirnar. „Þetta verður ekki mikið verra úr þessu“, muldraði ég. „Þetta hlýtur að vera botninn, að sofa á eigin svölum.“ En ó jú, í þeirri andrá sem ég sleppti orðinu (og nú er ég að segja þér alveg satt ,kæri lesandi) þá byrjaði að hellirigna yfir mig auma á svölunum. Ég fórnaði höndum. Nei þetta gengi ekki lengur, ég varð að komast inn eða niður. Ég gerði nokkrar tilraunir við að komast aftur á stigann en allt kom fyrir ekki.

Ég gekk að glugganum og klessti andlitið upp við rúðuna til að reyna að sjá hvort einhver væri þarna. Það var svartamyrkur og enginn sjáanlegur en ég tók þó eftir því að glugginn fyrir ofan svalahurðina var opinn. Ég greip til örþrifaráða, þræddi reimarnar úr skónum mínum og batt saman með lykkju á öðrum endanum. Ég klöngraðist upp á garðstól sem var geymdur þarna á svölunum og varlega renndi ég skóreiminni inn um gluggann og reyndi að kippa lásnum á hurðinni upp með misheppnuðum tilþrifum.

Ég var sennilega búin að reyna að snara lásinn í meira en tuttugu mínútur þegar ljósið í herberginu mínu var kveikt og mamma mín stóð stórgáttuð í dyrunum og starði á mig. Þetta hlýtur að hafa verið kostuleg sjón þar sem ég stóð á tánum á stól í sokkabuxum og skíðaúlpu með reimarnar úr skónum samanbundnar hangandi inn um gluggann að reyna hið ómögulega. „Hvað ertu að gera, Hulda Hvönn?“ spurði hún mig og rauk til og opnaði dyrnar. Ég hálfvalt inn, rennandi blaut og köld. „Ég læstist úti,“ andvarpaði ég. „Og ég vildi ekki vekja ykkur“. Mamma fitjaði upp á nefi. „Vekja okkur? Hulda Hvönn, ég vaknaði áðan við það að einhver opnaði bílskúrinn. Ég er búin að vera vakandi í langan tíma.“

Ég varð kjaftstopp. Þarna voru örugglega tvær klukkustundir síðan ég opnaði bílskúrinn fyrst. Og allan þennan tíma hafði mamma mín verið vakandi að horfa á sjónvarpið í eldhúsinu. Mér fannst líf mitt vera brandari og einhver með mjög slæmt skopskyn sæti nú einhvers staðar og hlæði að mér.

Það að sitja ein úti í bíl með snjallsímann minn, miðstöðina og útvarpið virtist allt í einu ekki svo slæmt. Með þetta í huga vil ég benda ykkur á það, góðu lesendur, að muna bara eftir lyklunum. Það er langauðveldasta lausnin við því að læstast úti.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir