Robin Williams er kominn aftur í meðferð, að því er vefsíða People greinir frá.
Robin Williams hefur lengi verið edrú en hann hefur nú skráð sig í meðferð í nokkrar vikur þrátt fyrir að hann hafi ekki fallið. Leikarinn segist hafa gert þetta til að halda sér réttum megin við línuna.
Robin Williams fór í meðferð vegna áfengissýki árið 2006 en áður átti hann einnig við kókaínfíkn að stríða. Frægð hans reis hratt á árunum 1978 til 1982 og sótti hann í fíkniefni vegna álags.
Leikarinn segist hafa hætt að nota kókaín og drekka áfengi árið 1982 þegar fyrsta eiginkona hans gekk með son þeirra Zachary sem í dag er 31 árs. Föðurhlutverkið, ásamt dauða vinar hans, Johns Belushis, hvatti hann til að verða edrú.
„Sorgarfréttirnar af Belushi voru skelfilegar. Dauði hans hræddi fjöldann allan af skemmtanafólki og olli því að fólk forðaðist fíkniefni,“ segir hann í viðtali við People.
Robin Williams á einnig dótturina Zeldu og soninn Cody sem bæði eru á tvítugsaldri frá seinna hjónabandi sínu með Mörshu Garces.