Pensacola Christian College í Flórída er af mörgum talinn einn strangasti háskóli í heimi. Það er þó ekki vegna óvenju mikillar heimavinnu eða harðra viðurlaga við ritstuldi sem háskólinn hefur þetta orðspor.
Í siðareglum skólans er ást á guði efst á lista en hverri siðareglu fylgja vísanir í biblíuna til frekari glöggvunar. Á eftir siðareglunum fylgir listi yfir það sem ekki má en svo virðist sem hann gildi yfir allan námstíman, sama hvort nemendur eru á skólalóðinni eða utan hennar.
Notkun og meðferð áfengis sem og annarra vímuefna er stranglega bönnuð. Klám eða ósiðlegt kynferðislegt athæfi er einnig bannað en samkvæmt listanum telst allt kynlíf fyrir hjónaband, framhjáhald og samkynhneigð til ósiðlegs kynferðislegs athæfis. Nemendur mega heldur ekki fá útrás með því að klæmast munnlega eða einu sinni blóta, í rituðu máli eða með raftækjum.
Nemendur mega heldur ekki dansa en samkvæmt skólayfirvöldum er tælandi eðli flestra dansa ósiðlegt samkvæmt reglum biblíunnar og til þess fallið að leiða fólk í freistni. Hverskonar fjárhættuspil eru bönnuð og nemendum er bent á að forðast að nota spil sem tengjast fjárhættuspilum á einhvern hátt.
Að lokum er tekið fram að galdrar, miðilsfundir, stjörnuspeki eða „aðrir satanískir tilburðir“ séu að sjálfsögðu bannaðir enda gangi þeir gegn lögmálum biblíunnar.
Siðareglunum fylgja einnig haldgóðar leiðbeiningar um hvernig nemendur skuli klæða sig. Til að mynda mega karlmenn ekki vera með skegg eða sítt hár eða vera kvenlega til fara að nokkru leiti. Að sama skapi mega konur ekki klæða sig karlmannlega eða ganga í buxum nema við íþróttaiðkun. Húðflúr eru einnig bönnuð sem og ónáttúrulegir hárlitir.
Mælt er með því að karlmenn noti aðeins gallabuxur eftir klukkan 17:00 á virkum dögum eða á laugardögum. Pilsfaldar kvenna mega verða að ná niður að hnjám og bolir og skyrtur skulu ávalt hylja axlir þeirra og brjóstaskoru með öllu. Sundfatnaður verður að hylja maga kvennanna og fari þær í vatnsrennibrautagarð eiga þær að klæðast stuttermabol að auki.
Jazz, rokk, rapp, R&B, popp og kántrítónlist er einnig á bannlista skólayfirvalda jafnvel þó textar laganna séu af kristnum meiði. Á háskólasvæðinu má ekki horfa á sjónvarp og utan sem innan háskólasvæðisins eru kvikmyndir bannaðar nema þær sem fáanlegar eru í bókasafni háskólans.
Samkvæmt heimasíðu PCC býður háskólinn upp á frábært umhverfi til að kynnast fólki og mynda langvarandi sambönd. Hinsvegar mega karlar og konur ekki snertast á nokkurn hátt eða vera á afviknum stöðum saman. Kynin hafa sitthvor bílastæðin, aðskyldar baðstrendur og er gert að nota sitthvorar lyfturnar og mega jafnvel ekki nota sömu stiga.
Nemendur verða að vera í herbergjum sínum frá 23:00 á kvöldin til 05:30 á morgnana. Ljós er slökkt klukkan 23:15 á virkum dögum en klukkan 24:00 á föstudögum og laugardögum. Aðeins þeir sem eru 23 ára eða eldri mega vaka og læra eftir að ljós hafa verið slökkt. Sérstök leyfi þarf til að fara í lengri ferðir út fyrir háskólasvæðið og einnig þarf sérstakt leyfi ef nemandinn vill vinna meðfram skóla.
Eins og margir geta ímyndað sér eftir þessa lesningu er PCC afar umdeild stofnun. Viðbrögð starfsmanna hennar við kynferðislegu ofbeldi hafa sérstaklega verið gagnrýnt. Í apríl steig fyrrum nemandi fram og sagði frá því að henni hafi verið sagt að iðrast fyrir að hafa verið nauðgað af þáverandi unnusta sínum. Ráðgjafi við skólann sagði henni að hún yrði að iðrast til að bæta samband sitt við guð og að hún yrði að fyrirgefa unnusta sínum til þess að biturleiki tæki ekki yfir líf hennar enda sé biturleikinn mun verri en hvað sem unnustinn gæti hafa gert.