„Þetta er suðupottur af heimamönnum og 101-rottum. Það er sprenging, mjög góð sprenging. Eins og að draga allar miðbæjarrotturnar á sveitaball.“ Þannig lýsir Logi Pedro Stefánsson LungA fyrir mér rétt áður en hann stígur á svið, en Retro Stefson var síðasta hljómsveitin sem spilaði og batt þar með enda á hátíðina í ár.
Allir sem voru viðstaddir lokahelgi LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi, ættu að geta sammælst um hversu frábær stemningin var í Seyðisfirði. Í öllu falli töluðu menn um „góðan anda“, „mikla orku“, „frábæra hátíð“ og fleira í þeim dúr en dagskránni lauk í gær með allsherjar tónlistarveislu. Auk þess var afrakstur listasmiðjanna, sem gestir hafa tekið þátt í alla vikuna, til sýnis með hátíðarbrag.
Þetta var mín þriðja heimsókn á LungA, þó bara á lokahelgina en ekki listasmiðjurnar, og eftir sem áður situr í mér smá öfund í garð krakkanna sem gátu leyft sér að dvelja hérna alla vikuna og fá „allan LungA-pakkann“. Eins og þegar Sara Björg Bjarnadóttir í danssmiðjunni lýsir fyrir mér „dansíókí“. sem er eins og karaókí nema maður dansar í stað þess að syngja, eða þegar Sindri Bergsson, sem tók þátt í smiðjunni Rafalvaf, segir mér hvernig hann er búinn að vera að taka í sundur gömul raftæki og vinna sínar eigin útgáfur af þeim alla vikuna með hjálp sérstaklega forritaðra tölva.
Alla jafna er boðið upp á sjö mismunandi smiðjur á LungA virku dagana fyrir tónleikaveisluna og ætti því hver að geta fundið sína fjöl. Sindri hefur komið þrisvar á LungA en ólíkt mér tók hann alltaf þátt í smiðjunum. „Mér hefur alltaf fundist frábært en samt aldrei eins. Hátíðirnar eru alltaf mjög ólíkar, sem er eiginlega það besta við það,“ segir hann mér.
Ég hitti þrjá gesti/listamenn á vappi fyrir utan Rafalvaf og tók þá tali. Einn var Guðmundur Felixson, sem tók þátt í sköpun „ódauðlegs verks“ í leiklistarsmiðju. Hinir tveir voru norsku námsmennirnir Mathias Hagen og Kristoffer Dokka, sem héldu hvor á sínum lúðrinum, nýbúnir að spila á göngu um bæinn. Gangan er sá hluti hátíðarinnar sem flytur gesti milli smiðja með pomp og prakt, glæsilegum búningum, dansi og hljóðfæraleik.
Hátíðin býr yfir alþjóðlegu aðdráttarafli, en Norðmennirnir sem ég talaði við voru hluti af ungmennaskiptum LungA (e. youth exchange program) og fréttu af hátíðinni í gegnum skólann sinn heima. Þeir ákváðu að skella sér eins og aðrir í svipuðum sporum frá löndum eins og Noregi, Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi og jafnvel Brasilíu og virtust hinir kátustu.
Ég talaði líka við bæjarbúa, Önnu Karlsdóttur, þar sem hún sat úti á verönd og fylgdist með herlegheitunum. „Það má öllum ljóst vera sem eiga heima hér að það er gríðarlega skemmtileg vika þegar LungA er hjá okkur og þá fyllist bærinn af ungu fólki og jafnvel fjölskyldufólki líka. Alls staðar má sjá hluti að gerast og mikil gerjun er í bænum. Það er alltaf eitthvað gleðilegt við þetta,“ segir hún.
Tónleikarnir hófust og gestir flykktust utar í fjörðinn, þar sem var búið að breyta gamalli síldverkunarstöð í glæsilegt svið. Tónlistin bergmálaði í klettunum, það rauk úr ryðguðum bát sem var búið að breyta í grillveitingastað og eftir því sem tók að dimma í firðinum virtust ljósaperurnar frá sviðinu lýsa þeim mun skærar.
Prins Póló var fyrsti listamaðurinn sem ég tók tali. Svavar Pétur Eysteinsson hefur verið viðloðandi hátíðina síðan snemma á öldinni og hefur oft spilað á henni áður við ýmis tækifæri. Það var einmitt á Seyðisfirði sem verkefnið Prins Póló hófst er Svavar var í bænum að „gutla“ saman lög, keypti sér nammi í sjoppunni og skýrði verkefnið eftir því. Hann lýsir tónlistinni sem „mínímalísku, nýstárlegu sveitaballapoppi“.
„Enskuna er hvort eð er búið að grilla svo mikið að það tekur enginn eftir því þótt maður grilli hana í hel, en það er svo skemmtilegt að taka þetta hreina mál sem við eigum og erum svo stolt af og „tvíka“ það aðeins til og „tvista“,“ segir Svavar. Hann ólst upp í Breiðholti og má finna skírskotanir þess efnis í sumum lögum hans. Aðspurður um helsta muninn milli Breiðholts og Seyðisfjarðar segir hann Seyðisfjörð einfaldlega vera smækkaða mynd af Breiðholti. „Það er stutta svarið við þessari spurningu.“
Ég náði Moses Hightower líka í viðtal eftir tónleikana þeirra. „Við höfum verið beðnir að koma áður en aldrei verið á landinu,“ sögðu þeir. „Þetta er ótrúlega spes hátíð. Ekki hreinræktuð útihátíð heldur lokahóf lista- og menningarviku sem er búin að eiga sér stað.“ Fyrstu lög hljómsveitarinnar, lýsa þeir fyrir mér, fæddust í svefnherberginu hjá Steingrími Karli Teague, bassaleikara og söngvara, við kertaljós og rauðvínsdrykkju.
„Á hjólabát sem er við það að fara niður foss, og þú ert búinn að átta þig á að þú átt ekki afturkvæmt. Tveir snúa aftur og tveir snúa fram og það er þitt verkefni að augu þín sýni ekki að fossinn sé þarna. Þú ert líka í jakkafötum.“ Beðnir að lýsa eigin tónlist er þetta sú mynd sem meðlimir Moses Hightower draga upp fyrir mig. „Í fjarlægri framtíð“, eða eftir viku, stefnir sveitin til Kanada að spila fyrir Vestur-Íslendinga, en þangað til verður hún uppi í sveit að semja lög.
„Þetta er frekar spes hátíð, því það er svo mikið af svona miðbæjar-101-rottum sem komast í bland við heimamenn að austan,“ sagði Logi Pedro, síðasti tónlistarmaðurinn sem ég spjallaði við. Hann segir mér frá því hvernig hann hafi þurft að koma í veg fyrir slagsmál á LungA 2012 og gerði það með því að minna á að LungA væri „friðarhátíðin“. Það virðist hafa virkað. Við tekur rólegt tímabil af upptökum og tónleikum, m.a. í Bandaríkjunum, að sögn Loga, en Retro Stefson stefnir að því að gefa út enn aðra plötu á næsta ári. „Það er alltaf nóg að gera. Markmiðið er alltaf að vera ný sveit eftir hverja plötu.“
Nýtt verkefni sem Logi er hluti af ber heitið Young Karin. „Þetta er önnur nálgun. Meira músík sem er byggð á listrænum pælingum sem ég get unnið einn.“ Young Karin spilaði einnig á LungA á fimmtudeginum. „Eins og ég sé að höggva skúlptúr er þetta meira mótað af mér,“ segir hann, og að Unnsteinn Manuel sjái frekar um að semja lögin í Retro Stefson. Áhugasamir geta borið saman lög Retro Stefson og Young Karin á Soundcloud.
Fegurðin var gífurleg í firðinum hvort sem litið var til náttúrunnar, tónlistarinnar eða annarrar listar sem hafði verið sköpuð yfir vikuna. Auk þeirra sem ég náði viðtali við, Loga í Retro Stefson, strákanna í Moses Hightower og Svavars í Prins Póló, voru Cell7, Hermigervill og Sin fang einnig nöfn sem stigu á pall og stóðu ekki síður fyrir sínu þótt mér hafi ekki tekist að ná spjalli. Nú halda „101-rotturnar“ aftur heim í miðbæ Reykjavíkur á meðan ég sit eftir í þokuskýi sem hefur lagst yfir bæinn - e.t.v. fylgifiskur þynnkunnar í Seyðisfirði - og íhuga hvað LungA 2015 muni bera í skauti sér.