Fjöldi vopnaðra ungra manna barðist í veðurblíðunni í Öskjuhlíð í dag. Mennirnir báru sverð og spjót, hlupu um skóginn og skiptust á að „drepa“ mann og annan. Allt var þetta þó í góðu gamni, en strákarnir taka þátt í ævintýranámskeiði í svokölluðu LARP-i, eða „rauntímaspunaspili“. Það ku vera vaxandi dægradvöl hérlendis og segir námskeiðshaldarinn LARP vera góða tilbreytingu frá þurrum hversdagsleikanum.