Peaches Geldof gæti hafa logið um eiturlyfjaprófanir sem eiginmaður hennar lét hana taka eftir að hún sætti meðferð vegna eiturlyfjafíknar, að því er fréttastofan Sky greinir frá.
Tónlistarmaðurinn Thomas Cohen fann eiginkonu sína, Peaches Geldof, látna í rúmi sínu hinn 7. apríl á þessu ári á heimili þeirra í Kent á Suðaustur-Englandi.
Réttarrannsókn leiddi í ljós að Geldof hefði tekið of stóran skammt af heróíni en hún hafði áður barist við heróínfíkn. Ásamt heróíni hafði hún áður notað meþódín í tvö og hálft ár áður en hún lést.
Geldof tók eiturlyfjapróf vikulega og sagði eiginmanni sínum að prófin sýndu alltaf neikvæða niðurstöðu en hann segist nú efins um hvort hún hafi sagt sannleikann um niðurstöðu prófanna og telur líklegt að hún hafi logið.
Hann segist hins vegar ekki hafa séð hana nota eiturlyfin þótt hún gæti hafa gert það á bak við hann.
Í febrúar fann hann smáskilaboð sem bentu til þess að hún væri aftur byrjuð að nota eiturlyf en eiturlyfjameðferð hennar hófst í nóvember árið áður. Eftir fundinn hafi hann rætt við eiginkonu sína og hún hafi sturtað heróíni niður í klósettið sem hún hafði falið fyrir honum.
Þegar lögregla var kölluð á staðinn þegar Peaches Geldof fannst látin fundust um 6,9 kíló af hreinu heróíni auk sprautunála og brunninna skeiða. Heróínið hafi verið mjög hreint, eða um 61%, en vegna nýafstaðinnar eiturlyfjameðferðar sem Peaches Geldof sætti er talið að efnið hafi verið of mikið fyrir líkama hennar og dregið hana til dauða.
Ásamt heróíni fannst morfín í blóði Geldof en líkur benda til að hún hafi látist stuttu eftir að hafa notað heróínið.
Þá er haft eftir lækni rannsóknarinnar að fólk sem tekur heróín reglulega þrói smátt og smátt með sér þol gegn eiturlyfinu og notendur með þol geti jafnvel notað eiturlyfjaskammt sem annars drægi fólk til dauða. Hins vegar sé algengt að fólk deyi af of stórum skammti af eiturlyfjum ef það hafi nýverið vanið sig af þessu þoli og taki of stóran skammt þegar það byrji aftur að nota eiturlyfið.
Í tilfelli Geldof hafði hún verið heróínfíkill í einhvern tíma, farið svo í meðferð í nóvember á síðasta ári og náð að halda sér edrú í einhvern tíma en, líkt og kom fram að ofan, hafið eiturlyfjanotkun aftur í febrúar á þessu ári.
Rannsókn málsins heldur áfram en nú er reynt að finna hver seldi Geldof eiturlyfin. Peaches Geldof lét eftir sig eiginmann og tvö börn.