„Fólk getur fóðrað sig á beikoni eins og það vill,“ segir Árni Georgsson, einn af skipuleggjendum Reykjavík Bacon Festival sem fram fer á Skólavörðustíg á laugardaginn. Hátíðin hefst klukkan 14 og stendur til kl 17.
„Helsti bakhjarlinn er Ali en Stjörnugrís tekur einnig þátt. Síðan er það Vífilfell, Höfuðborgarstofa, Svínaræktarsambandið og fleiri sem gera þetta að möguleika,“ segir Árni.
Þó svo að beikon sé í aðalhlutverki á hátíðinni verður hægt að nálgast margskonar matvörur á Skólavörðustígnum á laugardaginn. „Við erum einnig í samstafi við MS, grænmetisbændur og fiskvinnslufyrirtæki. Jafnframt erum við með veitingastaði með okkur eins og Hótel Holt, Kol, Þrjá Frakka, Roadhouse, Salt og fleiri. Allir staðirnir munu vera á hátíðinni og bjóða upp á rétti sem eru innblásnir af beikoni.“
Einnig verða ýmis skemmtiatriði og leiktæki fyrir börnin og er því óhætt að segja að Skólavörðustígurinn verði iðandi af lífi á laugardaginn.
„Það verða kórar, lúðrasveitir, harmonikkuleikarar og tónlistarmenn, nýir og gamlir. Til dæmis verður þarna hljómsveitin Brim sem hefur ekki verið starfandi í mörg ár,“ segir Árni sem hvetur fólk til að hafa samband vilji það taka þátt í hátíðinni á Facebook síðu Reykjavík Bacon Festival.
Reykjavík Bacon Festival er nú haldið í fjórða skiptið. Í fyrra mættu um 30 þúsund manns á hátíðina og að sögn Árna búa skipuleggjendur sig undir að enn fleiri mæti í ár. „Við erum undir það búnir að taka á móti fleirum en í fyrra. Síðan spilar veðrið inn í. Í fyrra var ekkert sérstakt veður, við vorum reyndar mjög heppin en það kom brjálað veður tveimur tímum eftir að hátíðinni lauk í fyrra.“
Spurður um ástæðurnar fyrir vinsældum beikons segir Árni erfitt að benda á eitthvað eitt. „En ætli það sé ekki þessi menningarlega skírskotun og síðan auðvitað bragðið.“