Nú er svo komið að hver fer að verða síðastur, ætli menn og konur að nýta sér hina margrómuðu og rómantísku geisla miðnætursólarinnar þegar bónorðið er borið upp. Þykir morgunljóst að nú duga engin vettlingatök þegar farið er á skeljarnar í veröld þar sem samfélagsmiðlarnir ráða ríkjum. Þú veist það sennilega jafn vel og næsti maður að ef það fór ekki á Instagram þá gerðist það sennilega ekki. Þess vegna keppast vonbiðlar nú við að koma með sem frumlegustu bónorðin er koma til með að hala inn lækum og deilingum. Augnablikið verður jú að vera efni í sögu til næsta bæjar, nú eða heimsálfu ef vel á að vera. Hér er smá-innblástur fyrir hugmyndasnauða sem vilja slá í gegn, hjá ástinni og umheiminum.
1. Michael frá San Fransisco gerði sér far um að breyta spjaldi úr hinum sívinsæla leik Pictionary með hjálp photoshop þar sem kærastan Connie þurfti svo að teikna upp: „Viltu giftast mér”. Eftir dágóðan tíma af tilgerðarlegum ágiskunum gargaði hann svo upp yfir sig: „Gifstu mér” og dró fram hringinn. Hún tjúllaðist náttúrlega og játti því. Fullkomin saga með myndrænni sönnun, sem sagt afar internetvænt.
2. Jake nokkur tók sig til og sló tvær flugur í einu höggi þegar hann eignaði sér heimsmetið í fullkomlega heppnuðum hvísluleik og trúlofaðist draumadísinni á sama tíma. Skilaboðin „Will you marry me, Kristina” fóru alls á milli 59 manns og enduðu hjá Kristinu þegar algjörlega ókunnugur maður bar upp bónorðið. Það þarf vart að segja frá því, en allt ætlaði um koll að keyra meðal þátttakenda í leiknum þegar já-ið kom. Þetta gæti til dæmis hæglega gengið upp á góðum degi á Austurvelli ... hver ætlar?
3. Ginnie átti sér einskis ills von þegar hún plantaði sér fyrir framan tjaldið í bíósalnum með popp og kók, þar sem hún ætlaði sér að eiga rólega stund yfir myndinni Fast Five. Alveg fór það úrskeiðis þegar ástarsaga hennar og Matt birtist henni ljóslifandi á hvíta tjaldinu og endaði það í bónorði. Dálítið flottur hann Matt sem seint verður sakaður um metnaðarleysi. Til að fá sem flestar deilingar á samfélagsmiðlunum væri gráupplagt að herja á sunnudagssýningu í Álfabakkanum, Facebook mun loga og Snapchat-innhólfin fyllast.
4. Hector var stórhuga og fékk til liðs við sig um 300 mótorhjólakempur til að stöðva alla umferð á I-10 hraðbrautinni í Los Angeles. Þegar því varð náð bað hann um hönd Paige, sem sló til, enda kannski ekki annað hægt verandi pikkföst í umferðarteppu, að ógleymdu skuggalega háu hlutfalli vitna. Skothelt plan og þú getur verið viss um að rata á alla samfélagsmiðlana, þó kveðjurnar gætu verið nokkuð misjafnar. Þetta gæti verið hressandi í fimm-umferðinni, jafnvel í Ártúnsbrekkunni á góðum degi. Ekki?
Að lokum getið þið séð hinn alíslenska Tomma spreyta sig á bónorðinu, en það skiptir kannski ekki öllu hvernig hlutirnir eru gerðir, svo framarlega sem þú ert með, í raunheimum á meðan á stendur.