Bandaríski leikarinn og grínistinn Robin Williams er látinn, 63 ára að aldri.
Í tilkynningu frá lögreglu í Marin sýslu í Bandaríkjunum kemur fram að Williams fannst látinn á heimili sínu í Tiburon í Kaliforníu fyrr í dag. Talið er að hann hafi framið sjálfsmorð, en í tilkynningu lögreglunnar kom fram að Williams hafi látist úr súrefnisskorti.
Eiginkona Williams, Susan Schneider, segir í tilkynningu að hún sé „fullkomlega niður brotin.“
„Þennan harmleik ber skjótt að. Fjölskylda hans óskar eftir að einkalíf þeirra verði virt á meðan þau syrgja hann á þessum erfiðu tímum,“ segir í tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa Williams.
Williams barðist við þunglyndi undanfarin ár en hafði einnig talað opinskátt um kókaínfíkn sína á 8. og 9. áratug síðustu aldar.
Hann er hvað best þekktur fyrir hluverk sitt sem plötusnúður bandaríska hersins í kvikmyndinni Good Morning Vietnam árið 1987, og sem enskukennarinn Herra Keating í Dead Poets Society árið 1989, ásamt því að ljá andanum rödd sína í Disney-myndinni Aladdin árið 1993.
Árið 1998 hlaut hann Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki í kvikmyndinni Good Will Hunting.