„Góóóóóóóðóððan daginn, Víetnaaaaaam!“ Þessi orð Robins Williams í hlutverki útvarpsmannsins Adrians Cronauer í kvikmyndinni Good Morning Vietnam eru ódauðleg. En orðsnilli Williams voru engin takmörk sett og eftir hann liggja margar fleygar setningar. Williams fannst látinn á heimili sínu í Kaliforníu í gær, 63 ára að aldri.
„Kókaín er leið guðs til að segja þér að þú þénir of mikla peninga,“ sagði Williams eitt sinn um eiturlyfjaneyslu. Sjálfur glímdi hann við eiturlyfjafíkn á fyrstu árum ferils síns. Hann misnotaði einnig áfengi og hóf m.a. meðferð við henni í sumar. Þá hafði hann þó verið edrú í nokkur ár.
„Kona myndi aldrei búa til kjarnorkusprengju. Þær myndu aldrei búa til vopn sem myndu drepa, nei nei. Þær myndu búa til vopn sem yrðu til þess að þér myndi líða illa í smá-tíma,“ sagði Williams um muninn á kynjunum.
„Þú færð aðeins einn lítinn neista af brjálæði í vöggugjöf. Þú mátt ekki tapa honum,“ sagði Williams eitt sinn um gamanleik sinn.
„Fyrst og fremst langar mig að þakka föður mínum, sem er þarna uppi, manninum sem sagði er ég sagðist ætla að vera leikari: „Frábært. Hafðu bara eitthvað starf til vara, eins og logsuðu,““ sagði hann í þakkarræðu sinni er hann fékk Óskarsverðlaunin fyrir hlutverk sitt í Good Will Hunting árið 1998.
„Ég fór í áfengismeðferð í vínræktarhéraði, svona til að halda öllu opnu,“ sagði Williams eitt sinn um áfengisvanda sinn.
Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá þegar Aladdin gefur andanum, sem Robin Williams lék, frelsi.