Lögreglan í Kaliforníu greindi frá því í dag að leikarinn ástsæli Robin Williams svipt sig lífi með hengingu. Eins og fram hefur komið þjáðist hann af geðhvörfum og hefur Boston Globe eftir fjölmiðlafulltrúa hans, Mara Buxbaum, að leikainn hafi undanfarið barist við mikla niðursveiflu og alvarlegt þunglyndi. Aðstoðamaður Williams kom að honum, með belti um hálsinn.
Lögreglustjórinn Keith Boyd greindi frá málavöxtum á blaðamannafundi í dag. Þar kom fram að aðstoðarmaður hans hefði brotist inn í herbergi hans, eftir að hafa reynt að ná sambandi við leikarann sem svaraði ekki þegar bankað var á hurðina. Hann hafði þá greinilega verið látinn í einhverjar klukkustundir.
Að sögn lögreglustjórans voru grunnir skurðáverkar á úlnlið Williams og fannst vasahnífur nálægt líkinu. Hann vildi ekki greina frá því á blaðamannafundinum hvort Williams hefði skilið eftir nokkur skilaboð, eða sjálfsvígsbréf. Niðurstöður eiturefnarannsókna munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir nokkrar vikur.
Eiginkona Williams, Susan Schneider, var síðust til að sjá hann á lífi, klukkan að ganga 23 kvöldið áður. Hún fór út úr húsi kl. 10:30 morguninn eftir og taldi þá að Williams vær enn sofandi í rúminu. Hann fannst látinn um kl. 12 á hádegi.
„Í morgun missti ég eiginmann minn og besta vin, og um leið missti heimurinn einn ástsælasta listamann sinn og fallega manneskju. Ég er niðurbrotin,“ sagði eiginkona hans í yfirlýsingu í gær.
Fyrir tveimur vikum setti Williams í síðasta sinn inn ljósmynd á samfélagmiðilinn Instagram, í tilefni 25 ára afmælis dóttur hans, Zelda Rae Williams, en á myndinni sést hann halda á henni barnungri í fanginu. Zelda Rae tísti um andlát föður síns í dag, með tilvitnun í Antoine De Saint-Exupery, höfund litla prinsis og orðunum: „Ég elska þig. Ég sakna þín. Ég reyni að horfa áfram upp til þín.“
— Zelda Williams (@zeldawilliams) August 12, 2014