Andlát Robins Willams hefur snert við mörgum og hafa aðdáendur til að mynda búið til tímabundinn minnisvarða úr bekk sem hann sat á í kvikmyndinni Good Will Hunting. Óhefðbundnari minnisvarði mun þó vera væntanlegur í tölvuleiknum World of Warcraft en aðdáendur Williams og tölvuleiksins hafa farið fram á að ný persóna verði sköpuð í leiknum honum til heiðurs.
Williams mun hafa verið mikill aðdáandi WoW en meira en 10 þúsund manns skrifuðu undir áskorun á tölvuleikjaframleiðandann Blizzard að heiðra minningu hans. Aðeins sextán klukkutímum eftir að áskorunin kom fyrst fram staðfesti Blizzard að óskir leikmannanna yrðu heiðraðar.
Enn er óljóst hvernig Williams verður heiðraður en lagt hefur verið til að persóna í hans líki muni segja nokkra af bestu bröndurum Williams á Heimsendakránni (Worlds End Tavern) svo leikmenn fái notið þeirra.