10 áhugaverðir áfangar í HÍ

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands Ómar Óskarsson

Flestir stúdentar við Háskóla Íslands hefja önnina þann 1. september en nú þegar hefur verið opnað fyrir endurskoðun námskeiða. Það er mismunandi eftir námsleiðum hversu mörg valfög og úr hvaða deildum stúdentar mega taka en ef Monitor þyrfti að velja sér tíu slík yrðu einhver neðangreindra án efa fyrir valinu. 

1. ABF309G Myndasögur.

Í almennri bókmenntafræði kennir ýmissa grasa og eftir áramót geta bókmenntafræðinemar til að mynda tekið áfangann Helvítis fokking fokk sem fjallar um hrunið í íslenskum bókmenntum. Monitor er þó spenntari fyrir áfanganum Myndasögur sem kenndur er af Úlfhildi Dagsdóttur og skoðar sögu og stöðu myndasögunnar í samtímanum. Hversu frábært væri að neyðast til að sökkva sér í Spider-Man eða manga fyrir ritgerð?

2. TÓS001G Ferðalög og útilíf.

Áfanginn Ferðalög og útilíf er að vísu ekki kenndur fyrr en í sumar en svei hvað hann virðist skemmtilegur. Ferðast verður gangandi um óbyggðir Íslands og meðal annars verður lögð áhersla á að tjalda, elda, leiðarval og rötun. Áfanginn er að mestu leiti uppbyggður af þessari einu fimm daga ferð auk ritgerðar en ekki verða gefnar lokaeinkunnir heldur einungis lokið eða ólokið. Þetta eru drauma- fimm -einingar hér á ferð að mati Monitor.

3. SÁL519G Réttarsálfræði.

Elskar þú Dexter, True Detective og aðra glæpaþætti? Leynist kannski klikkaður glæpamaður innra með þér? Ef þú ert að læra sálfræði getur þú smyglað þér inn í tíma í Réttarsálfræði og lært allt um sálfræðilegar skýringar á afbrotum, réttarkerfið og endurhæfingu afbrotamanna. Svo getur þú búið til sálfræðiprófíl fyrir hvern þann sem stal síðustu pítsusneiðinni þinni úr ísskápnum.

 4. STJ418G Námsferð til Bandaríkjanna.

Þú þarft að vísu að selja heilmikinn klósettpappír til að hafa efni á ferðinni ef þú ert námslánatýpan en þessi áfangi hljómar óneitanlega stórkostlega. Farið verður í heimsókn í höfðuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna, teknar verða sjálfsmyndir við Hvíta húsið og það fer enginn að halda því fram að það verði ekkert verslað. 

5. JAP107G Japanskar kvikmyndir.

Staðreynd: Allar bestu hryllingsmyndirnar koma upprunalega frá Japan. Þú munt ekki komast upp með að vera með annað augað á Facebook í þessum tímum en það er vegna þess að þú þarft að lesa textann, ekki vegna þess að annars fellir gamall fauskur þig fyrir að fylgjast ekki með glærunum sínum. Fimm einingar og ekkert lokapróf = ljúft líf.

6. FÉL209G Karlar og karlmennska.

Við eigum öll einhvern tíma í erfiðleikum með að skilja afhverju við eða annað fólk hegðar sér með ákveðnum hætti og hér er komið fullkomið tækifæri til að kynna sér hvað það er sem er svona merkilegt við það að vera karlmaður. Er það eitthvað sérstakt?

7. ENS437G Vampírur - frá Drakúla til Buffy og Bill.

Twilight og True Blood aðdáendur ættu allir að skella sér í ensku vorönninni. Í áfanganum eru vampírur skoðaðar í bókmenntum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum allt frá 19.öld og fram til okkar daga. Það er ekkert svo slæmt að þurfa að hanga á bókhlöðunni á laugardegi ef það er til þess að horfa á Buffy.

8. TÖL308G Tölvuleikjaforritun.

Þessi áfangi hlýtur að vera ein af höfuðástæðum þess að fólk flykkist í tölvunarfræðinám um þessar mundir, svona fyrir utan frekar huggulega tekjumöguleika. Hverjum langar ekki að vera apphetja hjá Plain Vanilla eða ofurnörd hjá CCP? Þú gengur örugglega með næsta QuizUp í maganum og skortir bara tólin til að framkvæma en hér hefur þú þau.

9. DAN312G Unglingamenning

Kannski fékkst þú nóg af flødeskum á öðrum skólastigum en ef þér finnst allt smakkast aðeins betur á dönsku gæti þessi áfangi verið eitthvað fyrir þig. Hver veit, þú gætir kannski skrifað lokaritgerð um Nik&Jay eða Medinu.

10. ÍÞH006G Knattspyrna I

Það er ekki leiðinlegt að geta lært um uppáhalds íþróttina sína á háskólastigi en auk knattspyrnu áfanga er boðið upp á áfanga í handknattleik, frjálsíþróttum og körfuknattleik. Íþrótta- og heilsufræði virðist svo sannarlega vera hin besta skemmtun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar