Guðmundur Sigtryggsson er barþjónn á Hilton Nordica. Í gærkvöldi voru heldur óvenjulegir gestir á barnum, en þeir áttu það sameiginlegt að hafa spilað með Justin Timberlake á tónleikum hans í Kórnum í Kópavogi í gær. Hljómsveitin gisti á Hilton, en Timberlake fór að sögn af landi brott strax eftir tónleikana.
Trommari hljómsveitar Timberlake, Brian Frasier Moore, spurði Guðmund hvort hægt væri að kaupa sígarettur á barnum.
„Ég sagði honum að það væri því miður ekki hægt og benti þeim á verslun 10/11 í Lágmúla. Trommarinn sagði þá að hann vantaði bara eina og spurði hvort ég vissi um einhvern sem væri til í að gefa sér sígarettu,“ segir Guðmundur.
Hann beið ekki boðanna, heldur teygði sig í vasa sinn og sótti eina sígarettu fyrir manninn. „Þá gaf hann mér „high five“ og rétti mér kjuðana sína. Hann sagðist hafa tekið þá sérstaklega með sér til að gefa þeim fyrsta sem gæfi honum sígarettu.“
Guðmundur segir að hljómsveitin hafi verið hress en kurteis fram í fingurgóma eins og á að vera. „Þetta eru miklir fagmenn,“ sem Guðmundur segir að hafi farið af landi brott í dag.