Hver þekkir ekki Attenborough?

Richard Attenborough sést hér fygjast með liði sínu, Chelsea
Richard Attenborough sést hér fygjast með liði sínu, Chelsea AFP

Ferillinn spannar yfir sjötíu ár og fáir sem hafa fylgst með leikhúsi og bíóum á því tímabili hafa komist hjá því að berja leikarann augum. Breski leikarinn og kvikmyndaleikstjórinn Richard Attenborough lést í gær níræður að aldri. Það er óhætt að segja að það eru fáir breskir bræður sem eru jafn þekktir um allan heim og þeir Richard og David Attenborough. Þrátt fyrir háan aldur (David er 88 ára að aldri) er náttúrufræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn David enn að og óþrjótandi í að kynna fyrir áhorfendum undraveröld náttúrunnar. 

Richard Attenborough fæddist 29. ágúst 1923 í Cambridge og hefði því orðið 91 árs næstkomandi föstudag. Hann hóf leiklistarferilinn tólf ára gamall og sem atvinnuleikari steig hann fyrst á svið átján ára gamall.

Kvikmyndaferilinn hófst árið 1942 er hann lék í myndinni In Which We Serve. Næstu árin lék hann í fleiri kvikmyndum en það var kvikmyndin Brighton Rock sem kom honum á heimskort kvikmyndanna. Þar lék hann hlutverk Pinkie en hann lék sama hlutverk á sviði nokkrum árum áður en myndin byggist á samnefndri sögu Graham Greene. Brighton Rock var vinsælasta myndin í Bretlandi árið 1947 og tveimur árum síðar var Attenborough kominn í hóp ástsælustu leikara bresku þjóðarinnar. 

Tuttugu ára gamall draumur varð að veruleika með Gandhi

Richard Attenborough lék meðal annars í kvikmyndum eins og The Great Escape, Doctor Dolittle, Ævintýri á 34. stræti, Jurassic Park og Elizabeth. En hann var einnig þekktur fyrir leikstjórn. Meðal annars fékk kvikmynd hans Gandhi átta Óskarsverðlaun, þar af fékk Attenborough tvenn, sem besti leikstjórinn og besta myndin.

Sir Ben Kingsley, sem fór með hlutverk Mohandas Karamchand Gandhi í myndinni segir í viðtali við BBC að hann muni sakna leikstjórans sárt. „Richard Attenborough treysti mér fyrir því erfiða og mikilvæga hlutverki að gæða tuttugu ára gamlan draum hans lífi,“ segir Kingsley og bætir við að á milli þeirra tveggja hafi ríkt gagnkvæmt traust og virðing.

Leikstjóri Jurassic Park, Steven Spielberg, fer einnig fögrum orðum um Attenborough og segir að hann hafi verið ástríðufullur um lífið og tilveruna. Hann hafi gefið heiminum söguna um Gandhi og síðar hafi hann gætt risaeðlur nýju lífi í hlutverki garðeigandans Johns Hammonds í Jurassic Park.

„Hann var kær vinur og ég er í hópi fjölmargra sem dáðu hann endalaust,“ segir Spielberg.

Gift í 69 ár

Síðustu æviár sín dvaldi Attenborough á hjúkrunarheimili ásamt eiginkonu sinni til 69 ára, Sheilu Sim, en hann var bundinn við hjólastól eftir að hann féll niður stiga á heimili sínu fyrir sex árum. Sim, sem er 92 ára lifir eiginmann sinn en hún og Attenborough eignuðust þrjú börn, Michael, Jane og Charlotte.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, skrifar á Twitter að Richard Attenborough sé eitt af stórmennum kvikmyndasögunnar og talar þar einkum um leik hans í Brighton Rock og leikstjórn Gandhi.

Áhrifin eru víða því Richard Attenborough hafði mikil áhrif á allt leikhúslíf Breta en hann var meðal annars forseti konunglegu leiklistarakademíunnar og var aðlaður af bresku krúnunni fyrir störf sín. 

Hann var forseti Duchenne samtakanna (Muscular Dystrophyí Bretlandi í 33 ár og var gerður að heiðursforseta samtakanna árið 2004. 

Barðist gegn kynþáttahatri og menntun fyrir alla

Attenborough var einnig mikill baráttumaður fyrir aukinni menntun og styrkti meðal annars skólastarf í Svasílandi og Suður-Afríku. Meðal baráttumála hans í menntamálum og það sem var ein helsta lífsskonun hans, að litar- eða kynþáttur ættu ekki að skipta máli þegar kæmi að menntun og enn síður trúarskoðanir viðkomandi. Hann starfaði meðal annars fyrir Waterford Kamhlaba háskólann í S-Afríku en skólinn veitti honum innblástur við leikstjórn kvikmyndarinnar Cry Freedom þar sem fjallað er um ævi Steve Biko.

Chelsea-maður fram í fingurgóma

 Attenborough var stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Chelsea alla tíð og var jafnvel framkvæmdastjóri knattspyrnuklúbbsins frá 1969-1992 og síðar var hann gerður að heiðursforseta félagsins við hátíðlega athöfn á Stamford Bridge. Chelsea liðið mun á laugardag leika með svarta borða í minningu hans í leiknum gegn Everton.

Chelsea minnist hans með hlýju og í tilkynningu frá félaginu kemur fram að leikarinn hafi alltaf haft tíma fyrir það sem hann elskaði mest þrátt fyrir mikið annríki á tíðum. Þar á meðal fyrir Chelsea FC. „Hans verður sárt saknað og hugur allra hjá Chelsea FC er hjá fjölskyldu og vinum á þessum sorgartímum,“ segir í tilkynningu.

Attenborough og enska leikkonan Sheila Sim gengu í hjónaband árið 1945. og bjuggu þau í sama húsinu í Beaver Lodge á Richmond Green í London frá árinu 1949 til 2012 er seldu það vegna heilsubrests. 

Missti dóttur og barnabarn á versta degi lífs hans

Annan dag jóla árið 2004 lést eldri dóttir þeirra, Jane Holland 49 ára, 15 ára gömul dóttir hennar, Lucy og tengdamóðir í flóðbylgjunni sem reið yfir Indlandshaf í kjölfar jarðskjálftans. Jane var ásamt fjölskyldu sinni í leyfi á Khao Lak í Taílandi þegar flóðbylgjan reið yfir. Tvö barna hennar, Samuel Holland og Alice Holland, lifðu flóðbylgjuna af.

Attenborough sagði síðar að annar dagur jóla árið 2004 hefði verið versti dagur lífs síns. Michael sonur hans er leikhússtjóri og fyrrverandi listrænn stjórnandi Almeida-leikhússins í Lundúnum. Hann er kvæntur leikkonunni Karen Lewis og eiga þau tvo syni. Yngsta dóttir Attenborough-hjónanna, Charlotte, er leikkona líkt og foreldrarnir og hún á þrjú börn.

Líkt og sést í breskum fjölmiðlum er Richard Attenborough sárt saknað víða um heim enda hefur hann tekið að sér mörg hlutverkin í lífinu, hvort heldur sem það er í leiklist, mennta- eða mannúðarmálum. 

BBC

Guardian

Telegraph

Richard Attenborough
Richard Attenborough AFP
Richard Attenborough lávarður sést hér koma að Downingstræti 10
Richard Attenborough lávarður sést hér koma að Downingstræti 10 AFP
Hjónin Richard Attenborough og Sheila Sim koma hér í minningarathöfn …
Hjónin Richard Attenborough og Sheila Sim koma hér í minningarathöfn um Díönu prinsessu AFP
Richard Attenborough sést hér taka við verðlaunum en hann hlaut …
Richard Attenborough sést hér taka við verðlaunum en hann hlaut þau mörg á ferlinum. AFP
Sheila Sim og Richard Attenborough
Sheila Sim og Richard Attenborough AFP
Richard Attenborough og jólasveinninn renna eflaust saman í huga margra …
Richard Attenborough og jólasveinninn renna eflaust saman í huga margra þegar þeir reyna að ímynda sér hvernig jólasveinninn lítur út.
Richard Attenborough lék stórt hlutverk í Júragarðinum
Richard Attenborough lék stórt hlutverk í Júragarðinum
Kvikmyndin Gandhi færði Richard Attenborough tvenn Óskarsverðlaun
Kvikmyndin Gandhi færði Richard Attenborough tvenn Óskarsverðlaun
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir