Verða að ná endum saman

Skólahreysti 2014
Skólahreysti 2014 Ómar Óskarsson

Annað árið í röð þurfa grunnskólar að greiða fyrir þáttöku í Skólahreysti en þáttökugjaldið er 38 þúsund krónur. Andrés Guðmundsson, sem stendur að keppninni ásamt Láru Berglind Helgadóttur, segir þetta vera einu leiðina til að ná endum saman.

„Frá því að við byrjuðum með Skólahreysti þá hefur það verið hugsjón okkar hjónanna að hafa þetta umhverfi frítt. Við reyndum það í öll þessi ár og lögðum alla okkar orku og metnað í þetta verkefni, enda rosalega skemmtilegt. Við höfum hinsvegar ekki náð endum saman undanfarin ár og urðum þess vegna að stokka þetta allt upp og vega það og meta hvernig við gætum haldið keppninni áfram. Því settum við á þessi keppnisgjöld,“ segir hann.

„Við erum ekki að fá mikið af opinberum styrkjum, 8% af heildarkostnaði keppninnar, og þurfum því að leita til samstarfsaðila. Það er bara voða lítið af peningum til að halda svona batteríi gangandi í dag. Það væri óskandi að þetta væri frítt og við reyndum það en það gekk því miður ekki upp,“ segir hann.

Óánægjuraddir hafa heyrst

Borið hefur á óánægju vegna gjaldsins en Ágúst Jakobsson, skólastjóri Naustaskóla á Akureyri, lét til að mynda hafa það eftir sér í viðtalið við mbl.is að grunnskólar á Íslandi væru almennt ekki aflögufærir með þessa peninga. Honum þykir það jafnframt skjóta skökku við að skólarnir séu að greiða þátttökugjald þegar í grunninn er verið að framleiða sjónvarpsefni.

„Peningurinn fer eingöngu í það að halda keppninni gangandi. Mér þykir það mjög leitt ef einhverjir skólar verða að draga sig til hlés sökum 38 þúsund króna keppnisgjalds. Ég tala nú ekki um skóla á Akureyri þar sem við komum til þeirra og þau þurfa ekki að borga fyrir rútur til eða frá staðnum eins og er með marga skóla um allt land. Við erum að koma með fjörutíu feta gám sem fullur er af dóti og erum alla nóttina að setja upp og undirbúa keppnina. Við erum hátt í tuttugu manns sem komum að keppnisdeginum sjálfum,“ segir hann.

„Við erum auk þess búin að koma Skólahreysti að á góðum tíma í sjónvarpinu þar sem unglingarnir eru í aðalhlutverki. Börn og unglingar um allt land vilja æfa og taka þátt í keppninni og byrja mjög ung að æfa sig. Ef aðstandendum grunnskóla finnst þetta ekki dýrmætt þá mega þeir bara eiga það við sig,“ segir Andrés ákveðinn.

Eru að semja við RÚV

Andrés kveður hið upphaflega markmið Skólahreystis, að hvetja börn og unglinga til hreyfingar, hafa viðhaldið sér.

„Skólahreysti hefur aldrei verið eins stórt og það var á síðasta ári. Hátt í tíu prósent af krökkunum sem eru að keppa í Skólahreysti hafa aldrei tekið þátt í skipulagðri íþróttastarfsemi áður. Ég er því rosalega ánægður með þann árangur sem keppnin hefur náð og hún fer bara vaxandi. Það eru auk þess hátt í sjötíu skólar með Skólahreysti sem val í sinni námsskrá,“ segir hann.

„Það er gaman að segja frá því að við erum nú að semja við RÚV um næstu ár auk þess sem við stöndum í viðræðum við nýja samstarfsaðila. Horfurnar eru því bjartar. Við stefnum ótrauð áfram að hraustara Íslandi,“ segir Andrés kátur að lokum.

Andrés Guðmundsson fylgist með að útfærslan sé rétt.
Andrés Guðmundsson fylgist með að útfærslan sé rétt. Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar