Leikarinn og hjartaknúsarinn George Clooney mun ganga að eiga unnustu sína, breska lögfræðinginn Amal Alamuddin í dag. Stórstjörnur, ljósmyndarar og fjölmiðlamenn eru samankomnir í Feneyjum í dag til að fylgjast með brúðkaupinu.
Ekki hefur verið nákvæmlega staðfest hvar og hvenær brúðkaupið mun fara fram, en samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs mun mótttaka gesta að öllum líkindum fara fram á lúxushótelinu Aman Canal Grande, þangað sem gestir geta komist með vatnaleigubíl.
Meðal fyrstu gesta brúðkaupsins sem komu til Feneyja í gær voru leikarinn Matt Damon og súpermódelið Cindy Crawford. Rande Gerber, eiginmaður Crawford verður samkvæmt heimildum slúðurmiðla svaramaður, og mun náinn vinur Clooney, Walter Veltron, gefa brúðhjónin saman.
Þá er talið að brúðarkjóll Alamuddin komi úr smiðju Söruh Burton sem hannar undir merki Alexander McQueen. Clooney mun þá að öllum líkindum klæðast jakkafötum frá Giorgio Armani á stóra deginum.
Í gær sáust Clooney og Alamuddin á ferð og flugi um Feneyjar ásamt fylgdarliði sínu.