Leikkonan Elizabeth Norment er látin, 61 árs að aldri. Hún lést af völdum krabbameins.
Norment lék mestmegnis í sjónvarpsþáttum og nú síðast í Netflix-seríunni House of Cards. Þar lék hún Nancy Kaufberger, sem vann fyrir tilvonandi forsetann Frank Underwood, leikinn af Kevin Spacey.
„Allir í House of Cards eru virkilega sorgmæddir yfir fráfalli Elizabeth,“ sagði Beau Willimon, framleiðandi þáttanna, í yfirlýsingu. „Hún var hæfileikarík leikkona, hlý sál og góður vinur okkar allra.“
Ótal kollegar hennar hafa minnst hennar á samfélagsmiðlum, þar á meðal mótleikari hennar, Kevin Spacey. „Hvíldu í friði Elizabeth Norment. Við elskuðum hana öll og hún skilur eftir tómarúm hjá öllum hér í House of Cards,“ skrifaði Spacey á Twitter.
Norment útskrifaðist frá leiklistardeild Yale-háskólans. Hún kom fram í fjölda sjónvarpsþátta, þar á meðal L.A. Law, E.R. og Party of Five. Auk þess lék hún hlutverk dómara í sjónvarpsþáttunum Law & Order frá árinu 2002 til 2008.