Bandaríska leikkonan Carol Ann Susi, sem leikur móður Howards Wolowitz í gamanþáttunum Big Bang Theory, er látin. Susi hefur aldrei sést í sjónvarpsþáttunum en rödd hennar, hás og skipandi, hefur heyrst oft og fengið áhorfendur ítrekað til að skella upp úr.
Susi lést eftir stutta en harða baráttu við krabbamein. Hún er m.a. þekkt fyrir leik sinn í Coyote Ugly, Seinfeld, Death Becomes Her og Grey's Anatomy.
Í yfirlýsingu frá framleiðendum Big Bang Theory segir að persóna Susi, frú Wolowitz, hafi verið sveipuð dulúð allar átta þáttaraðirnar, en hún hefur þó aldrei sést í þeim. „Það var hins vegar ekkert dularfullt við ótrúlega hæfileika Carol Ann sem gamanleikkonu.“
Framleiðendurnir segja að Susi hafi verið gefandi samstarfsfélagi allra sem unnu með henni.
Hér að neðan má sjá brot af atriðum þar sem frú Wolowitz fer á kostum í þáttunum.