Á Íslandi er ekki hefð fyrir því að fólki í þjónustustörfum sé gefið þjórfé en enginn virðist hafa sagt Jay-Z og Beyoncé það.
Samkvæmt Twitter notandanum @Julianahara er stjörnuparið nú farið af landi brott eftir að hafa veitt þyrluflugmönnunum sem sáu um ferðamáta þeirra hér á landi 2.000 evrur í þjórfé. Upphæðin samsvarar rúmlega 300 þúsund krónum og ef sagan er sönn geta þyrluflugmennirnir átt sérlega gleðileg jól þetta árið.
Segist notandinn hafa heimildir fyrir þessu í gegnum frænda sinn sem er einn af fyrrnefndum þyrluflugmönnum.
Notandinn segir Jay-Z og Beyoncé hafa gist á öðru hóteli í nótt en Blue Ivy, dóttir parsins, sem á að hafa komið til landsins ásamt fjölskyldu Jay-Z í gær. Öll hersingin mun svo hafa flogið af landi brott í dag.
Leiðrétting: Upphaflega stóð í fréttinni að flugmennirnir hefðu fengið 2.000 Bandaríkjadali, eða 250 þúsund krónur í þjórfé. Það hefur nú verið leiðrétt.