Stjörnuparið Beyoncé og Jay-Z keypti varning í 66°Norður meðan á dvöl þeirra hér á landi stóð. Þetta staðfestir Aldís Arnardóttir, rekstrar- og sölustjóri verslunarsviðs 66°Norður, í samtali við mbl.is.
Ekki fengust frekari upplýsingar frá versluninni um kaup parsins, en samkvæmt heimildum mbl.is keypti parið varning fyrir hátt í eina milljón króna í verslun 66°Norður í Faxafeni.
Versluninni var lokað fyrr á mánudagskvöldið í síðustu viku vegna komu hjónanna, sem voru nýlent á landinu og því ljóst að þau hafa ákveðið að fá sér almennileg útivistarföt fyrir dvöl sína á Íslandi.
Samkvæmt heimildum mbl.is voru Beyoncé og Jay-Z tvö á ferð þegar þau komu í verslunina og keyrðu svo á brott á svörtum Range Rover-jeppa.
Stjörnuparið hefur nú yfirgefið landið, en samkvæmt heimildum mbl.is gistu þau í The Trophy Lodge í Úthlíð. Þau voru hér á landi til að halda upp á afmæli Jay-Z.
Parið er sagt hafa verið með íslenska leiðsögumenn meðan á dvölinni stóð ásamt því að hafa verið með íslenska öryggisgæslu að hluta. Lífverðir hjónanna voru með í för.
Þá heimsóttu þau Bláa lónið eins og mbl.is greindi frá.