Búið er að aflýsa frumsýningu gamanmyndarinnar The Interview í New York vegna hótana sem hafa borist frá tölvuþrjótum. Kvikmyndin fjallar morð á forseta Norður-Kóreu.
Talsmaður kvikmyndahússins staðfestir þetta, en tölvuþrjótar sem hafa gert árásir á Sony, sem framleiðir kvikmyndina, hafa hótað því að gera árásir á bandarísk kvikmyndahús þar sem myndin verður sýnd. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Tölvuþrjótarnir tilheyra sama hóp sem hefur birt netföng og stolið upplýsingum frá Sony. Þeir kalla sig á ensku „Guardians of Peace“, sem útleggja mætti sem Friðargæsluliðarnir. Í skilaboðum sem þeir sendu frá sér minntust hakkararnir á hryðjuverkaárásirnar sem voru gerðar í New York 11. september 2001 og bættu við að „heimurinn mun verða óttasleginn“.
„Minnist 11. september 2001. Við leggjum til að þið haldið ykkur fjarri þessum stöðum á þeim tíma,“ skrifaði einn tölvuþrjótur í skilaboðum sem voru birt í gær.