Bítlavinurinn sem sló í gegn

Joe Cocker sló í gegn á Woodstock hátíðinni.
Joe Cocker sló í gegn á Woodstock hátíðinni.

Breski tón­list­armaður­inn Joe Cocker lést í gær, sjötugur að aldri. Átti hann að baki 50 ára tónlistarferil sem var jafnt litaður af gríðarlegri velgengni innan tónlistarheimsins sem og baráttu við eiturlyfja- og áfengisfíkn. Á seinni hluta ævi sinnar átti Cocker sterka endurkomu sem söngvari og túlkaði verk fjölbreyttra lagahöfunda á sinn einstaka hátt svo eftir var tekið.

Fékk smá hjálp frá vinum sínum

Cocker fæddist 20. Maí 1944 og var alinn upp í Sheffield. Hann hætti í skóla 16 ára gamall og um tíma leit út fyrir að honum væri ætlað heldur óspennandi líf við gaspípulagningar. Tónlistin togaði þó alltaf í hjartastrengi Cocker og hafði hann sungið og trommað með nokkrum hljómsveitum þegar hann gerði samning við Decca records árið 1964. Decca records gaf út fyrsta lag Cocker þar sem hann söng Bítlalagið „I‘ll Cry Instead“ en þar sem lagið náði aldrei flugi var samningi Cocker og Decca slitið. Árið 1968 fékk Cocker svo stóra tækifærið þegar plötuútgáfan Regal Zonophone gaf út útgáfu Cocker af „With a Little Help From My Friends“. Lagið er að sjálfsögðu upprunalega Bítlalag en Cocker þótti blása í það nýju lífi og náði útgáfa hans á topp metsölulistans í Bretlandi í nóvember sama ár.

Það kom ekki að sök fyrir Cocker að Bítlarnir sjálfir tóku útgáfunni fagnandi og studdu hann með ráð og dáð. Mun Paul McCartney t.a.m. hafa sagt Cocker að hans útgáfa slæi útgáfu þeirra við. Lagið var upprunalega sungið af Ringo Starr og var fjörlegt og fyndið en þegar Cocker tók við því með sinni rámu rödd varð það að rokkóð sem féll eins og flís við rass Woodstock kynslóðarinnar. Það var einmitt á Woodstock hátíðinni í ágúst 1969 sem Cocker meitlaði nafn sitt að eilífu í stein tónlistarhefðarinnar í Bandaríkjunum. Framkoma Cocker var svo uppfull af ómannlegum öskrum, gretttum og líkamshnykkkjum, að áleitinni rödd hans ógleymdri, að lagið varð eitt af þeim eftirminnilegustu í kvikmyndinni sem fylgdi hátíðinni.

Kaótískt ferðalag leiddi til fíknar

Í kjölfarið gaf Cocker út plötuna Joe Cocker! sem naut gríðarlegra vinsælda í Bandaríkjunum og skartaði næsta smelli hans „She Came in Through the Bathroom Window“ sem einnig var Bítlaábreiða. Þegar hljómsveit Cocker, The Grease Band liðaðist í sundur rétt fyrir tónleikaferð um Bandaríkin tilkynntu yfirvöld honum að yrði ekki af ferðinni gæti það haft áhrif á atvinnuleyfi hans í landinu. Því hóaði hann saman í 21 manns hljómsveit sem hlaut nafnið Mad Dogs and Englishmen og pakkaði 65 tónleikum í 57 daga ferðalag. Varð það grunnurinn að kvikmynd og tvöfaldri tónleikaplötu sem seldist eins og heitar lummur. Cocker var þó illa á sig kominn andlega eftir kaótískt ferðalagið og hafði þar að auki safnað stórum bunka af skuldum.

Við tók langt tímabil drykkju og heróínfíknar og Cocker reyndi ekki aftur við tónlistina á sviði fyrr en árið 1972. Þá átti hann þó erfitt með að hafa stjórn á hvötum sínum og var margsinnis of ölvaður til að koma fram. Í október sama ár fékk hann 1.200 dala sekt í Ástralíu fyrir að hafa kannabis í fórum sínum og flýði hann í kjölfarið landið til að komast hjá frekari ákærum, þar á meðal fyrir líkamsárás.

Sneri lífi sínu við

Cocker var varla meira en skugginn af sjálfum sér það sem eftir lifði áttunda áratugarins en gaf þó út einn sinn stærsta smell „You Are So Beautiful“ árið 1975. Árið 1982 átti Cocker ákveðna endurkomu með plötunni Sheffield Steel og dúetti sínum og Jennifer Warnes „Up Where We Belong“ úr Óskarsverðlaunamyndinni An Officer and a Gentleman. Lagið vann bæði Grammy og Óskarsverðlaun.

Ferill Cocker varð þægilegur upp frá þessu, hann naut virðingar meðal jafningja sinna og átti tryggan, alþjóðlegan aðdáendahóp. Hann var staðráðinn í að vera edrú og studdi Pam, eiginkona hans sem hann giftist 1987, hann í baráttunni gegn Bakkusi. Hann hélt áfram plötuútgáfu á níunda og tíunda áratugnum og árið 1995 kom út fjögurra diska sett, The Long Voyage Home, þar sem hápunktar ferils hans voru teknir saman.

Spilaði fyrir fyrirmennin

Cocker hefur spilað fyrir margt valdamesta fólk heims. Hann kom fram í sjötugs afmæli Nelson Mandela árið 1988 og árið 1989 spilaði hann í veislu til heiðurs nýjum forseta Bandaríkjanna, George HW Bush. Árið 1994 spilaði hann á Woodstock II og árið 2002 spilaði hann „With a Little Help From My Friends“ í tilefni af 50 ára krýningarafmæli Elísabetar drottningar í Buckingham höll ásamt Phil Collins og Brian May. Sama ár toppaði Cocker aftur breska vinsældalistann með plötunni Hymn for My Soul þar sem hann söng m.a. lög Stevie Wonder, Dylan, Fogerty og Bítlunum.

Cocker átti marga vini og aðdáendur ínnan tónlistarheimsins og gerði Billy Joel t.a.m. hlé á tónleikum sínum Madison Square Garden í september á þessu ári til að leggja fram tillögu um að Cocker yrði tekinn inn í frægðarhöll rokksins. Tilkynnti hann þá einnig að Cocker ætti við veikindi að stríða.

Röddin greipt í minni okkar

Margir hafa minnst Cocker í dag og hefur Paul McCartney t.a.m. sagt að hann verði Cocker að eilífu þakklátur fyrir að breyta „With a Little Help From My Friends“ í sálartónlistaróð.

„Ég þekkti hann í gegnum árin sem góðan félaga og ég varð svo sorgmæddur að heyra að hann væri veikur og svo sorgmæddur að heyra í dag að hann hefði fallið frá,“ sagði McCartney.

„Hann var frábær náungi, indæll náungi sem færði heiminum svo mikið og við munum öll sakna hans.“

Ringo Starr, Steve Tyler og Bryan Adams eru meðal þeirra fjölmörgu sem hafa minnst Cocker á Twitter. Edgar Berger, framkvæmdastjóri Sony Music Entertainment International hefur einnig tjáð sig og sagt Cocker vera einn auðmjúkasta mann sem hann hefur nokkurn tíma hitt. „Rödd hans mun að eilífu greipt í minni okkar.“

Joe Cocker tókst að hífa sig upp úr greipum fíknarinnar.
Joe Cocker tókst að hífa sig upp úr greipum fíknarinnar. AFP
Cocker lést úr krabbameini.
Cocker lést úr krabbameini. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir