Bandaríska alríkisstjórnin dreifði plastsnjó yfir Suðurríkin, David Cameron faldi olíufund í Skotlandi og hagræddi úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði og halastjarnan sem geimfarið Philae lenti á var í raun geimfar. Þetta þrjár af bestu samsæriskenningum ársins að mati breska blaðsins The Telegraph.
Varla verður atburður í heiminum án þess að hópur fólks komi af stað samsæriskenningum um það sem „raunverulega“ gerðist. Þannig trúa því til dæmis margir enn að tungllendingin hafi verið sett á svið og að bandarísk stjórnvöld hafi skipulagt árásirnar á Tvíburaturnana 11. september árið 2001.
Breska blaðið hefur nú valið átta bestu samsæriskenningar sem hafa sprottið upp um atburði sem orðið hafa á þessu ári. Þess ber að geta að engin rök eru fyrir neinum af kenningunum.
Fyrsta á blað nefnir blaðið þá kenningu að bandaríska alríkisstjórnin hafi dreift gervisnjó yfir Suðurríkin í upphafi árs. Þá náðu miklar vetrarhörkur sem gengu yfir landið allt niður til Atlanta í Georgíuríki í suðrinu. Sumir notendur á Youtube sáu hins vegar maðk í mysunni og sökuðu alríkisstjórnina um að stjórna veðrinu. Máli sínu til stuðnings birtu þeir myndskeið þar sem þeir kveiktu í snjónum með kveikjurum. Reyndist snjórinn ekki bráðna og varð hann svartur af eldinum.
Veðurfræðingar voru hins vegar fljótir að útskýra að snjór verður oft beint að gasi þegar hann er hitaður og bútangas, sem er að finna í flestum kveikjurum, skilja eftir svört för í öllu sem það brennir.
Sú saga gekk fjöllunum hærra að stuðningsmenn þess að Skotar héldu sig áfram innan Bretlands hefðu þaggað niður mikinn olíufund skömmu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði í september. Kenningin gengur þá út frá því að olíufundurinn hefði verið vatn á myllu sjálfstæðissinna en David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafi ennfremur hagrætt niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar til að tryggja að Skotar segðu ekki skilið við fyrrverandi heimsveldið.
Skömmu eftir að fréttir af ebólufaraldrinum byrjuðu að tröllríða fjölmiðlum fóru samsæriskenningar á kreik um að sjúkdómurinn væri í raun runninn undan rifjum Bandaríkjahers. Sjúkdómavarnastofnun landsins hefði fengið einkaleyfi á bóluefni og hygðist græða á tá og fingri í kjölfarið. Sumir fulltrúar repúblikana notuðu slíkar samsæriskenningar í áróðursskyni og héldu því fram að Barack Obama, forseti, væri viljandi að gera landið berskjaldað fyrir veirunni svo hann gæti síðar tekið sér neyðarvöld í hendur til að stjórna landinu með harðri hendi.
Hér má svo lesa nánar um aðrar samsæriskenningar sem The Telegraph hefur tekið saman frá árinu 2014 sem er að líða.