Margt stórfurðulegt gerðist í heiminum árið 2014.
Í janúar fullyrti japanskur undirfataframleiðandi að hann hefði sett á markað mjög svo undarlegan brjóstahaldara. Hann væri þeim eiginleikum gæddur að ekki væri hægt að opna krækjurnar nema sá sem haldaranum klæddist væri ástfanginn. Brjóstahaldarinn var kallaður: True Love Tester.
Í febrúar datt par í Kaliforníu heldur betur í lukkupottinn er það var úti að ganga með hundinn sinn. Parið fann grafinn fjársjóð gullpeninga, um 10 milljóna dollara virði. Þetta er einn dýrmætasti fjarsjóður sem fundist hefur í Bandaríkjunum.
Í mars sagðist danskt ferðaþjónustufyrirtæki ætla að rífa upp fæðingartíðni í Danmörku með því að senda fleiri Dani til rómantískra borga á borð við París. Í auglýsingunni sagði: Gerðu það fyrir Danmörku!
Í apríl rak að landi flöskuskeyti sem hafði verið hent í sjóinn við Þýskaland fyrir 101 ári. Talið er að flöskuskeytið sé það elsta í heiminum og fékk barnabarn sendandans skeytið afhent. Skeytið fannst í Eystrasalti.
Í maí voru sex lögreglumenn í Rio de Janeiro handteknir og ákærðir fyrir að hafa stöðvað flutningabíl sem var að flytja kvenundirföt. Þeir stálu nærfötunum og reyndu að kúga fé út úr bílstjórunum.
Í júní strauk 89 ára gamall fyrrverandi hermaður, sem barðist í síðari heimsstyrjöldinni, frá öldrunarheimili sínu á Englandi til að vera viðstaddur minningarathöfn í norðurhluta Frakklands. Hann var með medalíurnar sínar faldar undir frakka sínum.
Í júlí héldu suðurkóreskir búddistar bænasamkeppni í Seoul. Þar komu m.a. fram rappandi nunnur og syngjandi munkar. Tilgangurinn var að laða yngra fólk að samtökum þeirra.
Í ágúst hóf veitingastaður í Kína að nota vélmenni til að taka á móti viðskiptavinum sínum. Vélmennin elduðu einnig matinn og báru hann á borð.
Í september gekkst gullfiskurinn Georg undir mjög áhættusama heilaskurðaðgerð í Melbourne í Ástralíu. Eigandi fisksins vildi frekar greiða fyrir aðgerðina en að láta aflífa hann.
Í október var fyrrverandi kjúklinga- og sveppabóndi kjörinn ungfrú Úganda. Búið er að gera miklar breytingar á keppninni þar í landi og í stað þess að konurnar kæmu fram á sundbolum kepptu þær í að mjólka kýr og sinna geitum og kindum.
Í nóvember kom 91 árs gömul pólsk kona starfsmönnum líkhúss í opna skjöldu með því að byrja að hreyfa sig á borðinu hjá þeim. Þá voru liðnir 11 klukkutíma frá því að hún var úrskurðuð látin. „Er við höfðum komið henni heim sagðist henni vera kalt og hún bað um heitt te,“ segir frænka konunnar.
Í desember flutti Sandra, 29 ára gamall órangútan, úr dýragarði í Buenos Aires þar sem hún hafði dvalið í 20 ár. Dómstóll hafði ákveðið að hún ætti að njóta meiri réttinda og betri aðbúnaðar.