Sjónvarpsþættirnir vinsælu Game of Thrones hafa gert Ísland að einum heitasta áfangastað ástralskra ferðalanga ef marka má frétt á vef The Australian. Þar kemur fram að bókunum á Íslandsferðum hafi fjölgað um 440 prósent hjá landsmönnum í ár, en tölfræðin er fengin hjá bókunarsíðunni Student Flights.
Fimmta þáttaröð Game of Thrones var að miklu leyti tekin upp á Íslandi, en jafnframt fór kraftajöturinn íslenski Hafþór Júlíus Björnsson þar með hlutverk illmennisins The Mountain.
Þá er m.a. bent á að stjörnuparið Beyonce Knowles og Jay Z hafi deilt myndum af Íslandsferð á dögunum, en eins og frægt er orðið hélt sá síðarnefndi upp á 45 ára afmæli sitt hérlendis fyrr í mánuðinum.
Fleiri ólíklegir ferðamannastaðir hafa notið vinsælda meðal Ástrala, en þar má m.a. nefna borgina Albuquerque í Nýju-Mexíkó fylki Bandaríkjanna þar sem hinir geysivinsælu Breaking Bad þættir fara fram. Talað hefur verið um “Breaking Bad-áhrifin”, en ferðum Ástrala til borgarinnar fjölgaði um 900 prósent samkvæmt fréttinni.
Fréttir mbl.is:
Ógleymanleg stund í Game of Thrones