Lífið er ekki endalaust í Hollywood frekar en annars staðar, að minnsta kosti ekki utan hvíta tjaldsins. Fjölmargir dáðir listamenn létu lífið í ár og var eðli málsins samkvæmt fjallað talsvert um andlátin í fjölmiðlum. mbl.is tók saman nokkrar af þekktustu stjörnunum sem féllu frá árið 2014.
Leikarinn vinsæli Philip Seymour Hoffman fannst látinn á heimili sínu í New York 2. febrúar, en andlátið var rakið til ofneyslu fíkniefna. Hoffman, sem var aðeins 46 ára gamall, hlaut Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína í aðalhlutverki í kvikmyndinni Capote árið 2005. Hann var síðan tilnefndur til verðlaunanna fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum Charlie Wilson's War, Doubt og The Master. Einnig fór hann með hlutverk í Hungurleikunum, Mission Impossible III, Magnolia og The Big Lebowski svo dæmi séu tekin.
Skemmtikrafturinn Russell Brand var meðal þeirra sem tjáðu sig eftir andlát leikarans og sagði Hoffman vera fórnarlamb „asnalegra laga um bann við fíkniefnum“.
Bandaríski leikarinn, leikstjórinn og handritshöfundurinn Harold Ramis lést úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi þann 24. febrúar, 69 ára gamall. Eitt fyrsta verkefni hans var kvikmyndin Ghostbusters, en einnig leikstýrði hann Groundhog Day og Analyze This.
Bandaríski tískuhönnuðurinn og fyrirsætan L'Wren Scott fannst látin í íbúð sinni í New York þann 17. mars og var dánarorsökin talin sjálfsvíg. Scott hóf feril sinn sem fyrirsæta sautján ára gömul þegar hún var uppgötvuð af ljósmyndaranum Bruce Weber. Sá ráðlagði henni að fara til Parías og fá vinnu við fyrirsætustörf. Scott, sem var rúmlega 190 cm á hæð, starfaði m.a. hjá Chanel tískuhúsinu um nokkurt skeið þar til hún flutti aftur til heimalandsins þar sem hún starfaði sem stílisti og tískuhönnuður.
Scott var unnusta rokkarans Micks Jaggers, en samband þeirra hófst árið 2001. Ekkert þótti benda til þess að Scott glímdi við andleg veikindi, en Mirror greindi frá því að tískuhús hennar hefði verið afar skuldugt og námu skuldir hennar við lánardrottna 4,5 milljónum punda.
Breska sjónvarpskonan Peaches Geldof lést í apríl og var dánarorsökin talin vera ofneysla heróíns. Geldof var 25 ára gömul og lét eftir sig eiginmann og tvo syni. Yngri sonur Geldof var við hlið hennar þegar hún fannst látin á heimili sínu. Geldof hóf fjölmiðlaferil sinn aðeins fjórtán ára gömul þegar hún skrifaði greinar fyrir tímaritið Elle Girl, en hún skrifaði síðar fyrir The Daily Telegraph og The Guardian. Hún var síðan með sinn eigin sjónvarpsþátt og starfaði sem fyrirsæta, en missti stóran fyrirsætusamning árið 2010 þegar umræða fór á kreik í netheimum um meinta fíkniefnanotkun hennar.
Tónlistarmaðurinn Tommy Ramone lést úr krabbameini þann 11. júlí, 62 ára gamall. Hann var einn upphafsmanna hljómsveitarinnar The Ramones, sem stofnuð var í New York árið 1974, og þótti brautryðjandi á sviði pönksins. Tommy var síðasti upphaflegi eftirlifandi meðlimur sveitarinnar.
Ein stærsta frétt ársins var líklega andlát stórleikarans Robins Williams. Williams var 63 ára gamall þegar hann framdi sjálfsvíg á heimili sínu í Kaliforníu þann 11. ágúst. Fjölmargir minntust Williams, en þar má m.a. nefna Barack Obama Bandaríkjaforseta og leikarann Billy Crystal sem sagði Williams hafa verið „björtustu stjörnuna á vetrarbraut grínsins“. Williams var vinsælastur allra í leitarvél Google í ár, en auk þess að leita að nafni hans leituðu netverjar í auknum mæli að ýmiss konar sjálfshjálparprófum tengdum t.d. þunglyndi og geðheilsu í kjölfar andlátsins.
Williams er hvað best þekktur fyrir hluverk sitt sem plötusnúður bandaríska hersins í kvikmyndinni Good Morning Vietnam árið 1987, og sem enskukennarinn Herra Keating í Dead Poets Society árið 1989, ásamt því að ljá andanum rödd sína í Disney-myndinni Aladdin árið 1993. Sama ár fór hann einnig eftirminnilega með hlutverk aldraðrar húshjálpar í kvikmyndinni Mrs. Doubtfire.
Árið 1998 hlaut hann Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki í kvikmyndinni Good Will Hunting.
Enski leikarinn Richard Attenborough lést í ágúst níræður að aldri. Heilsu Attenboroughs hrakaði talsvert sex árum áður þegar hann féll niður stiga á heimili sínu og var hann eftir það í hjólastól.
Attenborough lék í kvikmyndum á borð við The Great Escape, Doctor Dolittle, Ævintýri á 34. stræti, Jurassic Park og Elizabeth. Hann var einnig þekktur fyrir leikstjórn og leikstýrði m.a. kvikmyndinni Cry Freedom um frelsishetjuna Steve Biko. Kvikmynd hans Gandhi hlaut síðan átta Óskarsverðlaun, þar af fékk Attenborough tvenn, sem besti leikstjórinn og fyrir bestu mynd.
Richard var bróðir náttúrufræðingsins og sjónvarpsmannsins Davids Attenboroughs sem hefur frætt sjónvarpsáhorfendur um dýraríkið um árabil.
Bandaríska sjónvarpskonan Joan Rivers fór í hjarta- og öndunarstopp er hún gekkst undir aðgerð á hálsi í september og lést í kjölfarið. Hún var 81 árs gömul. Rivers var þekkt fyrir að tala hispurslaust og sagði m.a. ýmsum stórstjörnum til syndanna í sjónvarpi.
Hún var snemma þekktur uppistandari, en frá því í september 2010 var hún stjórnandi í þættinum Fashion Police á sjónvarpsstöðinni E! Þátturinn naut undir hennar stjórn gríðarlegra vinsælda en með henni í þættinum voru m.a. Kelly Osborne, Giuliana Rancic og George Kotsiopoulos. Í þættinum var fjallað um klæðaburð og útlit fræga fólksins og átti Rivers þar góða spretti er hún reif í sig viðkomandi með lýsingarorðum sem fáir aðrir hefðu þorað að nota í sjónvarpi. Vegna þessa fékk hún stundum viðurnefnið eiturtungan.
Richard Kiel lést á sjúkrahúsi í september 74 ára gamall. Æðasjúkdómur var gefinn upp sem dánarorsök bandaríska leikarans sem var einna þekktastur fyrir leik sinn í James Bond myndunum The Spy Who Loved Me árið 1977 og Moonraker árið 1979. Hann kom einnig fram í gamanmyndinni Happy Gilmore árið 1996.
Kiel fór með hlutverk stáltennta risans Jaws í Bond myndunum, en hann var 2,18 metrar á hæð og féll því vel inn í hlutverkið.
Bandaríska leikkonan Carol Ann Susi lést í nóvember eftir stutta en harða baráttu við krabbamein. Susi var 62 ára gömul, en nýlega var hún þekktust fyrir hlutverk sitt sem móðir Howards Wolowitz í gamanþáttunum Big Bang Theory. Susi hefur aldrei sést í sjónvarpsþáttunum en rödd hennar, hás og skipandi, heyrðist oft og fékk áhorfendur ítrekað til að skella upp úr.
Hún er einnig þekkt fyrir leik sinn í Coyote Ugly, Seinfeld, Death Becomes Her og Grey's Anatomy.
Breski tónlistarmaðurinn Joe Cocker lést þann 22. desember af völdum veikinda. Cocker átti að baki 40 ára farsælan tónlistarferil en hann er einna þekktastur fyrir útgáfu sína af Bítlalaginu „With A Little Help From My Friends“ sem skaut honum upp á stjörnuhimininn en sömuleiðis til að mynda fyrir lögin „You Are So Beautiful“ og „Up Where We Belong“.
Steve Tyler, Ringo Starr og Bryan Adams voru meðal þeirra fjölmörgu sem minntust Cocker á Twitter, en Edgar Berger, framkvæmdastjóri Sony Music Entertainment International hefur einnig tjáð sig og sagt Cocker vera einn auðmjúkasta mann sem hann hefur nokkurn tíma hitt. „Rödd hans mun að eilífu greipt í minni okkar.“
Hér var aðeins nefnt brot þeirra þekktu listamanna sem féllu frá á árinu, en af öðrum má nefna Ruby Dee, Eli Wallach, Elizabeth Pena, Casey Kasem, Elizabeth Norment og Bobby Womack.
11. janúar: Fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael, Ariel Sharon, 85 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi í Tel Aviv eftir að hafa legið í dái í átta ár.
20. janúar: Ítalska tónskáldið Claudio Abbado, 80 ára aldri.
27. janúar: Bandaríski þjóðlagasöngvarinn Pete Seeger, 94 að aldri.
28. janúar: Austurríski óskarsverðlaunaleikarinn Maximilian Schell, 83 ára að aldri.
10. febrúar: Barnastjarnan fyrrverandi, Shirley Temple Black, lést á heimili sínu í Kaliforníu, 85 ára að aldri.
6. apríl: Bandaríski leikarinn Mickey Rooney, 93 ára að aldri. Hann hafði lengi glímt við erfið veikindi.
17. apríl: Kólumbíski rithöfundurinn Gabriel Garcia Marquez, 87 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í Mexíkóborg.
21. apríl: Win Tin, einn helsti hvatamaður að lýðræðisumbótum í Búrma, 84 ára að aldri.
29. apríl: Breski leikarinn Bob Hoskins, 71 árs að aldri. Lést úr lungnabólgu á sjúkrahúsi.
25. maí: Hershöfðinginn Wojciech Jaruzelski, síðasti leiðtogi Kommúnista í Póllandi, lést á sjúkrahúsi í Varsjá, níræður að aldri.
28. maí: Afrísk/ameríski rithöfundurinn, ljóðskáldið og mannréttindafrömuðurinn Maya Angelou lést á heimili sínu í Norður-Karólínu, 86 ára að aldri.
7. júlí: Alfredo Di Stefano, goðsögn hjá knattspyrnufélaginu Real Madrid, 88 ára að aldri. Hann er að mörgum talinn einn besti fótboltamaður allra tíma.
13. júlí: Suður-afríska nóbelsskáldið og mannréttindafrömuðurinn Nadine Gordimer, níræð að aldri. Hún lést a heimili sínu í Jóhannesarborg.
16. júlí: Blússtjarnan Johnny Winter, sjötugur að aldri. Hann bar bandarískur en lést á hóteli í Zurich.
12. ágúst: Bandaríska leikkonan Lauren Bacall, 89 ára að aldri. Hún fékk heilablóðfall á heimili sínu í New York.
19. ágúst: Bandaríski ljósmyndarinn og blaðamaðurinn James Foley, fertugur að aldri. Hann var fyrstur Vesturlandabúa til að vera tekinn af lífi af Ríki íslams.
4. október: Fyrrum einræðisherra Haítí, Jean-Claude „Baby Doc“ Duvalier, lést úr hjartaáfalli, 63 ára að aldri.
28. október: Forseti Sambíu, Michael Sata, 77 ára. Hann lést í London þar sem hann hafði farið til að leita sér lækninga.
19. nóvember: Bandaríski leikstjórinn og óskarsverðlaunahafinn Mike Nichols, 83 ára að aldri.
20. nóvember: Spænska hertogaynjan af Alba. Hún var 88 ára og hafði fleiri titla en nokkur hefðarmaður jarðar. Hún lést úr lungnabólgu í höll sinni í Seville.
26. nóvember: Líbanska söngkonan og leikkonan Sabah, 87 ára. Hún lést á hóteli þar sem hún bjó, rétt fyrir utan Beirút.
27. nóvember: Ástralski krikketspilarinn Phillip Hughes, 25 ára. Hann lést eftir að hafa fengið krikketbolta í höfuðið á leik í Sydney.
5. desember: Fabiola drottning í Belgíu, 86 ára. Hún var ekki Baudouin konungs.