Mynd segir meira en þúsund orð og kannski er það einmitt þess vegna sem The Global Language Monitor hefur valið hjarta-emoji táknið sem vinsælasta orð enskrar tungu árið 2014.
Í 15. árlegu úttekt GLM á enskri tungu kemur fram að þetta sé í fyrstaskipti sem myndletur af þessu tagi hlýtur þennan titil en hjarta og ástar emoji-inn birtist oftar á dag en mögulegt væri að telja, þvert á landamæri, tungumál og menningarheima.
Samkæmt úttektinni var hjartað notað 342 milljón sinnum á Twitter í júní 2014. Eini emoji-inn sem komst nálægt þeirri tölu var gleðitára-emoji táknið sem birtist 278 milljón sinnum. Emoji-ar sem innihéldu hjörtu með ólíkum hætti voru einnig afar vinsælir en hjörtu birtust í 14 af 100 vinsælustu emoji-unum.
Önnur orð sem náðu á topp tíu listann voru m.a. orðið „vape“ sem þýðir að reykja rafsígarettu, „bae“ sem er afbökun á „babe“ og „bashtag“ sem er afbökun á „hashtag“ og er notuð um neikvæð myllumerki sem ætlað er að níða.
GLM segir val á orði ársins vera byggt á raunnotkun orða í hinum enskumælandi heimi. Til þess að eiga séns á að komast á listann þurfa orðin að hafa náð alþjóðlegri útbreiðslu og yfir 25 þúsund tilvitnanir á bak við sig auk þess sem þau þurfa að hafa birst í mörgum ólíkum tegundum miðla.