Andrés prins hyggst ekki grípa til lagalegra úrræða gegn konunni sem hefur sakað hann um að hafa haft samfarir við sig þegar hún var unglingur. Talsmenn Buckingham-hallar hafa staðfastlega neitað því að nokkuð sé til í ásökunum konunnar.
Talsmenn konungsfjölskyldunnar hafa m.a. bent á að prinsinn, sem er jafnframt hertogi af York, á ekki beina aðild að málaferlum í Bandaríkjunum, þar sem milljarðamæringurinn Jeffrey Epstein hefur m.a. verið sakaður um að hafa neytt ólögráða stúlkur til að stunda kynlíf með mikilsmetnum mönnum.
Lögfræðingurinn og prófessorinn Alan Dershowitz er meðal þeirra sem konan hefur nefnt en hvorki hann né prinsinn hafa verið ákærðir fyrir meinta glæpi né kærðir af konunni. Dershowitz hefur farið fram á að ásakanirnar gegn honum verði strikaðar út.
Telegraph hefur eftir Söru Ferguson, fyrrverandi eiginkonu Andrésar, að York-fjölskyldan standi þétt saman. „Hann er besti maður sem til er. Það var besta augnablik lífs míns þegar ég giftist honum 1986. Hann er frábær maður, sá besti í heimi.“
Andrés hefur verið myndaður með Epstein og hafði áður beðist afsökunar vegna vinskapar síns við mógúlinn, sem hefur afplánað fangelsisdóm fyrir vændisstarfsemi.