Jóhann Jóhannsson tónskáld hlaut Golden Globe-verðlaunin í nótt fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything.
Í myndinni rakin er saga eðlisfræðingsins Stephens Hawkings og eiginkonu hans, Jane.
Jóhann hefur um áratugaskeið verið virkur við tónsmíðar, þrátt fyrir að hann hafi kannski fyrst náð athygli heimsbyggðarinnar á undanförnum árum.
Jóhann er 45 ára, fæddist í Reykjavík hinn 19. september 1969 og er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Golden Globe-verðlaunin eftirsóttu.
Tónlist Jóhanns barst mörgum rokkunnendum eflaust fyrst til eyrna þegar hann lék á hljómborð og gítar með rokkhljómsveitinni HAM, sem var hvað virkust á árunum 1988 til 1994, en Jóhann fór áður fyrir hljómsveitinni Daisy Hill Puppy Farm.
Árið 1999 stofnaði Jóhann hljómsveitinar Apparat Organ Quartet ásamt Herði Bragasyni, Múskivati og Úlfi Eldjárn. Jóhann sagði síðar skilið við hljómsveitina, en hún hefur notið töluverðra vinsælda.
Framan af þótti Apparat mínímalísk, en tónlist sveitarinnar þróaðist út í þyngri og riff-drifnari tónlist, sem virtist sækja áhrif sín til rafsveita á borð við Kraftwerk og Daft Punk.
Jóhann vakti fyrst athygli sem tónskáld fyrir tónlist sína við leikritið Englabörn árið 2001, en samnefnd plata var samhliða gefin út í takmörkuðu upplagi. Platan vakti mikla og jákvæða athygli og fékk til að mynda einkunnina 8,9 af 10 hjá tónlistarvefritinu Pitchfork.
Um titilinn „tónskáld“ sagði Jóhann þetta við Arnar Eggert Thoroddsen í viðtali í Morgunblaðinu árið 2008:
(Arnar) – Nú hef ég heyrt af því að fólk úr akademíunni, menntuð tónskáld, hafi fussað og sveiað yfir rokkaranum sem er að gera nútímatónlist. Hver er afstaða þín til þessa?
„Ég verð ekkert var við þessa umræðu – nema á Íslandi. Ég veit það ekki, er þetta af því að við erum með þetta gildishlaðna orð, „tónskáld“, sem má bara nota yfir lært fólk? Í ensku er orðið „composer“ notað yfir alla þá sem semja tónlist.
Kannski ætti ég að kalla mig „phonometrographe“ eða „hljóðmælinga- og skráningarmann“ eins og Erik Satie kallaði sig, en honum var stundum strítt á að hafa litla formlega menntun í tónlist. Ég sótti mér menntun í bókmenntum og tungumálum og ég tel að það sé alveg eins góður undirbúningur fyrir starf sem listamaður eins og diplóma í tónlist.
Þekkingu í hljómfræði og orkestrasjón er hægt að viða að sér úr bókum og það hef ég gert og mun halda áfram að gera. Tónlistin virðist annars eina listgreinin þar sem prófgráður skipta einhverju lykilmáli.“
Árið 2004 var Jóhann farinn að láta almennilega til sín taka á sviði kvikmyndatónlistar. Þrjú lög af plötunni Englabörnum voru notuð í kvikmyndinni Wicker Park, en í myndinni var einnig að finna tvö lög eftir hljómsveitina múm.
Í öðru viðtali við Arnar Eggert í Morgunblaðinu árið 2004 sagði Jóhann að „tónlistin af [Englabörnum] hefur verið notuð mjög víða og ég er stöðugt að fá fyrirspurnir. Þetta eru stuttmyndir, dansverk og svo framvegis. Mér finnst þetta vera hið besta mál“.
Jóhann viðurkennir í viðtalinu að þessi ásókn í tónlistina við Englabörn hafi komið sér þægilega á óvart. „Þetta var auðvitað samið fyrir leikrit upprunalega en eftir að platan kom út er eins og tónlistin hafi öðlast sjálfstætt líf.“
Jóhann hélt áfram að hasla sér völl og greindi Morgunblaðið frá því 2010 að tónlist hans væri mikið spiluð á bandarísku úrvarpsstöðinni National Public Radio (NPR), en NPR dreifir efni til ríflega 800 útvarpsstöðva um gervöll Bandaríkin.
Ári síðar var greint frá því að hann hefði samið tónlistina við heimildarmyndina „The Miners' Hymns“ eftir bandaríska kvikmyndagerðarmanninn Bill Morrison
Í myndinni er rakin saga kolanámumanna í Durham í Englandi og þá m.a. verkfalls þeirra árið 1984. Í myndinni er ekkert tal, enginn sögumaður eða viðtöl, heldur fléttað saman gömlum upptökum úr safni breska ríkisins og nýju efni frá Morrison. Tónlist Jóhanns skipaði því stóran sess í myndinni.
Jóhann hefur gefið út sex plötur, auk þess að hafa samið tónlist sérstaklega fyrir sjö kvikmyndir.
Í viðtali við Morgunblaðið árið 2007 sagði Jóhann við nafna sinn Jóhann Bjarna Kolbeinsson:
Þegar tónlistarárið 2006 var gert upp í Morgunblaðinu komst [plata Jóhanns,] IBM 1401 á tvo lista yfir bestu plötur ársins, í klassískri tónlist og popptónlist, enda erfitt að skilgreina tónlistina á plötunni.
„Ég hef rosalega lítinn áhuga á svona skilgreiningum og mér finnst að það ætti bara að vera einn listi yfir góðar plötur,“ segir Jóhann. „En ég skil að það sé þörf fyrir einhverjar skilgreiningar og fólki finnst gaman að skilgreina hlutina, og auðvitað gerir maður það líka. En minn bakgrunnur er í rokki, ég er ekki klassískur tónlistarmaður. Ég lít bara á mig sem tónlistarmann, punktur. Ég set mig ekki í neinar sérstakar stellingar þegar ég er að nota svokölluð klassísk hljóðfæri.“
Seinni part árs 2013 var Jóhann loks orðaður við Óskarsverðlaun fyrir frumsamda tónlist í kvikmynd. Myndin sem um ræðir er spennutryllirinn Prisoners, þar sem Hugh Jackman og Jake Gyllenhaal fara með aðalhlutverk. Tónlist Jóhanns var ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna, en myndin fékk góða dóma og tónlistin ekki síður.
Fyrir örfáum dögum, áður en Jóhann fékk Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything, var hann svo tilnefndur til BAFTA-verðlauna.
Þar að auki hafa kvikmyndaspekingar bent á að undanfarin 10 ár hafa Golden Globe-verðlaunahafar fyrir bestu frumsömdu tónlist fengið Óskarsverðlaunin í sex tilvikum.
Þess má einnig geta að undanfarin sjö ár, frá árinu 2007, hefur Óskarinn farið til þess sem hlaut Golden Globe fyrir frumsamda tónlist það ár. Myndirnar sem um ræðir eru Atonement, Slumdog Millionare, Up, The Social Network, The Artist og Life of Pi. Árið 2013 fór Golden Globe til Alex Ebert fyrir tónlistina í kvikmyndinni All is Lost, en það ár fór Óskarinn til Stevens Price fyrir tónlistina í kvikmyndinni Gravity.
Í viðtali í Kastljósi á RÚV fyrr í kvöld sagði Jóhann að hann hefði ekki búist við því að hljóta verðlaunin í gærkvöldi. „Maður hugsar ekki mikið,“ sagði Jóhann aðspurður hvernig tilfinning það hafi verið að heyra nafn sitt kallað upp. „Maður var í hálfgerðum transi og reynir að komast í gegnum það að ávarpa sal fullan af kvikmyndastjörnum. Það er ekki mín sérgrein að halda tölur uppi á sviði. En maður komst í gegnum þetta einhvern veginn.“
Jóhann sagði jafnframt að The Theory of Everything væri rosalega sterk kvikmynd með magnaðri frammistöðu helstu leikara. Telur hann að það sé eitt af því sem veldur því að tónlist hans nær svona vel í gegn til áhorfandans. „Þetta er mynd sem tengir mjög beint við fólk og nær þessu tragíska elementi sem höfðar til fólks og gagnrýnenda,“ segir Jóhann. Bætti hann við að tónlistin væri mjög vel notuð og sett á rétta staði. Þakkaði hann leikstjóra myndarinnar hversu vel hún fékk að njóta sín.
Aðspurður hvort hann væri byrjaður að leiða hugann að Óskarsverðlaunum svarar Jóhann því neitandi. „Ég er alveg á kafi í nýrri kvikmynd. Ég flýg á eftir til Berlínar og tek upp tónlist fyrir þá mynd eftir þrjár vikur. Ég hef voðalega lítinn tíma til að hugsa um einhver verðlaun, sem er bara mjög gott,“ segir Jóhann, en tilkynnt verður um tilnefningar til Óskarsverðlaunanna á fimmtudaginn.
„En auðvitað er mjög spennandi og skemmtilegt að myndin sé að fá svona viðurkenningu og sérstaklega tónlistin,“ segir Jóhann. „Yfir því er ég ánægður og snortinn.“