Jóhann Jóhannsson tónskáld er enginn venjulegur maður. Hvort hann býr í næsta nágrenni við mig er óstaðfest en Golden Globe-verðlaunin sem hann hlaut í fyrrinótt hafa þó gert hann ofboðslega frægan. Þetta staðfestir Jakob Frímann Magnússon, formaður Félags tónskálda og textahöfunda og stjórnarmaður í ÚTÓN, en hann segir Jóhann nú formlega orðinn einn af þessum stóru.
„Þetta eru miklar gleðifréttir, fyrst og fremst fyrir Jóhann en ekki síður fyrir kollega hans í stétt íslenskra tónskálda. Þetta er gott veganesti fyrir þá tugi íslenskra tónlistarmanna sem eru að fara á stærstu tónlistarhátíð Evrópu, Eurosonic, seinna í vikunni,“ segir Jakob Frímann.
„Þetta er staðfesting á því að íslensku tíðnisviðin bræða hug og hjarta fólks um víða veröld. Sú nálgun sem hér þekkist, að feta ekki einvörðungu slóð hins hefðbundna og fyrirséða heldur leyfa sér að hugsa út fyrir hin hefðbundnu form og munstur, hefur verið farsæl. Þar hefur Jóhann Jóhannsson ævinlega verið áberandi og framarlega í flokki enda á hann á baki glæstan feril,“ segir Jakob og vísar sérstaklega til rokksveitarinnar HAM sem hann segir bersýnilega hafa verið uppeldisstöð fyrir hamhleypur af ýmsum toga.
Þegar dregið hefur til tíðinda fyrir íslensk íþróttalið á erlendum vettvangi eða jafnvel í Eurovision hefur landsmönnum oftar en ekki verið hóað saman til að hylla hetjur sínar við heimkomu þeirra. Jakob segir eins tilefni fyrir þjóðina að fagna Jóhanni.
Segir hann að margir tónlistarmenn hafi verið hugsi yfir innlendum fréttaflutningi af verðlaununum í gær og þá sérstaklega í sjónvarpi.
„Kannski hafa menn bara ekki áttað sig af mikilvægi málsins. Þetta er einn af þeim merku bautasteinum sem íslenskt tónlistarfólk hefur reist og heldur okkar nafni og ásýnd í mjög réttu ljósi eftir allar ham- og hrunfarir.“
Jakob segist þó vilja bæta því við að þó svo að tómlæti ákveðinna fjölmiðla hafi verið óþægilega áberandi þá sé forysta tónlistarlífs á Íslandi ánægð og þakklát fyrir þann skilning og áhuga sem íslenska ríkisstjórnin sýnir greininni nú og nefnir þar sérstaklega 12 milljón króna framlag til þátttöku íslenskra tónlistarmanna á Eurosonic.
„Þó að það sé ekki beinlínis í tísku að mæra stjórnvöld þá fá þau fullt hús stiga hjá okkur fyrir atfylgi sitt, skilning og stuðning. Það veit á gott,“ segir Jakob. „Við erum þrátt fyrir allt bjartsýn og samgleðjumst Jóhanni með að vera orðinn það sem maður kallar einn af þessum stóru.“
Tengd frétt:
Kvikmyndatónskáld sem byrjaði í rokki