Tónskáldið Jóhann Jóhannsson er tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything. Þetta var tilkynnt á öðrum tímanum í dag. Hann hefur því verið tilnefndur til BAFTA og Óskars auk þess að vinna Golden Globe verðlaunin í sínum flokki.
Í The Theory of Everything er rakin saga eðlisfræðingsins Stephens Hawkings og eiginkonu hans, Jane. Kvikmyndin hefur nú þegar hlotið mikið lof gagnrýnenda og unnið til fjölda verðlauna. Myndin hlaut fjórar tilnefningar til verðlauna á Golden Globe en auk Jóhanns fékk Eddie Redmayne, sem fer með hlutverk Stephen Hawkings, verðlaun fyrir hlutverk sitt í myndinni. Felecity Jones var einnig tilnefnd fyrir hlutverk sitt sem eiginkona Hawkings í flokknum um bestu leikkonu í aðalhlutverki og hlaut myndin tilnefningu sem besta dramatíska kvikmyndin.
Jóhann hefur um langt skeið verið virkur við tónsmíðar en hann hefur náð athygli heimsbyggðarinnar á undanförnum árum. Rokkunnendum barst tónlist Jóhanns hvað fyrst til eyrna þegar hann lék á hljómborð og gítar með hljómsveitinni HAM sem var hvað virkust á árunum 1988 til 1994. Þá vakti hann fyrst athygli sem tónskáld fyrir tónlist sína við leikritið Englabörn 2001 en samnefnd plata var gefin út. Árið 2004 var Jóhann farinn að láta almennilega til sín taka á sviði kvikmyndatónlistar en þrjú lög af plötunni Englabörn voru notuð í kvikmyndinni Wicker Park. Hefur tónlist hann verið notuð í ýmsum verkum í Bandaríkjunum en Jóhann samdi til dæmis tónlistina fyrir heimildamyndina The Miners' Hymns eftir Bill Morrison og spilaði tónlistin stóran sess í henni.
Jóhann var orðaður einnig við Óskarinn árið 2013 fyrir frumsamda tónlist sína í spennutryllinum Prisoners.
Óskarsverðlaunahátíðin fer fram 22. febrúar næstkomandi í Los Angeles og verður sýnt beint frá henni í Sjónvarpi Ríkisútvarpsins.
Hér að neðan má sjá myndbrot þar sem Jóhann segir frá tónlistinni sem hann gerði fyrir The Theory of Everything.
Fréttir mbl.is af nýlegum afrekum Jóhanns