Reykjavíkurdæturnar Steiney og Sara hafa svarað „Myrkum í athugasemdum“ með myndbandi sem vefmiðillinn Nútíminn birti fyrir skömmu.
Í myndbandinu lesa þær „bestu“ ummælin sem fallið hafa um rappsveitina á veraldarvefnum undanfarna daga að hætti þáttastjórnandans Jimmy Kimmel. Málið rekur rætur sínar til aðfararnætur laugardags þegar rapparinn Emmsjé Gauti birti tíst um að Reykjavíkurdætur væri feit pæling sem gekk ekki upp.
Þetta er ekki spurning um kyn. Rapp er rapp. RVK dætur var feit pæling sem gekk ekki upp. Vond tónlist er vond tónlist.
— Emmsjé Gauti (@emmsjegauti) January 31, 2015
Margir hafa tekið upp hanskann fyrir Reykjavíkurdætur en eins eru margir sem hafa nýtt tækifærið til skítkasts og er fyrirsögn þessarar fréttar dæmi um slíkt.
Eins og mbl.is hefur greint frá slökkti Emmsjé Gauti fljótlega á tilkynnungum Twitter eftir að tíst hans fór á flug um netheima en hann hefur tíst skýrum skilaboðum gegn hatursorðræðu um femínista.
Allir sem hafa drullað yfir femínisma í tengslum við fréttir af mér og RVK-dætrum eru ekki mínir talsmenn.
— Emmsjé Gauti (@emmsjegauti) February 4, 2015
Sjón er sögu ríkari.