Tilviljanir geta oft verið skemmtilegar. Iðunn Steinsdóttir rithöfundur samdi textann „Sumarást“ við lag eftir Þorgeir D. Hjaltason, sem Jóhanna Linnet söng í Söngvakeppni Sjónvarpsins 1987. Í kvöld syngur Elín Sif Halldórsdóttir, 16 ára sonardóttir hennar, „Í kvöld“, frumsaminn texta við eigið lag í úrslitum sömu keppni.
Iðunn er ekki aðeins þekktur rithöfundur heldur hefur hún samið marga texta sem hafa lifað í kunnum lögum með þjóðinni. Þar má nefna „Bíddu pabbi“, „Jón er kominn heim“, „Ég fer í fríið“ og „18 rauðar rósir“. Hún vill ekki gera upp á milli ljóðanna en segir að sér þykir samt einna vænst um ljóðin sem hún hafi samið fyrir sjálfa sig.
„Ég vissi ekki að amma hefði átt texta í keppninni, en hún er rosalega flink og mér finnst allir textarnir hennar sérlega flottir,“ segir Elín.
Amman sparar heldur ekki stóru orðin um barnabarnið. „Hún er yndisleg, stelpan, og ég er mjög ánægð með hana. Hún er mjög listfeng, flutningurinn var flottur hjá henni í undanúrslitum Söngvakeppninnar og hún stendur sig mjög vel.“
Þegar Iðunn varð 75 ára í liðnum mánuði gaf Elín henni sérstaka afmælisgjöf. „Ég fór heim til hennar eftir skóla og spurði hana hvenær hún hefði byrjað að semja ljóð. Þá sýndi hún mér mörg eldgömul ljóð eftir sig, meðal annars um vinkonu sína, sem mér fannst ótrúlega falleg. Þá sagði ég henni að ég ætlaði einhvern tíma að semja lag við ljóð eftir hana og ákvað síðan að gera það í jólafríinu og gefa henni í afmælisgjöf. Ljóðið heitir „Vefurinn“ og ég kom henni á óvart í afmælinu með því að flytja lagið.“ Iðunn tekur undir það. „Hún er mjög skapandi og skemmtileg og þetta var mjög gaman.“
Elín á ekki langt að sækja hæfileikana. Helga Rut Guðmundsdóttir, móðir hennar og dósent í tónmennt við Háskóla Íslands, er doktor í tónlistaruppeldi barna og á og rekur tónlistarskólann Tónagull, þar sem boðið er upp á námskeið fyrir foreldra og nýfædd börn þeirra. „Ég fór fyrst með Elínu á tónlistarnámskeið þegar hún var átta mánaða gömul, í Bandaríkjunum,“ segir Helga og áréttar að Elín hafi verið í tónlistarumhverfi frá blautu barnsbeini. Hún æfði lengi dans og þar lék tónlistin stórt hlutverk. „Mér hefur alltaf þótt ótrúlega gaman að dansa og syngja með,“ segir Elín og bætir við að hún eigi mörg frumsamin lög í handraðanum.
Ekki hefur komið til tals að Elín og Iðunn vinni saman að lagi og texta en þær taka ekki fyrir að samvinna á þessu sviði geti orðið að veruleika. „Það er góð hugmynd,“ segir Iðunn.
Elín komst í úrslit Söngvakeppninnar eftir að hafa flutt lag sitt á fyrra undanúrslitakvöldinu. Fjölskyldan og þar á meðal Iðunn var í salnum og Elínu leist fyrst ekki á blikuna. „Ég bað mömmu að mæta ekki með margt fólk, því ég taldi það trufla mig, en um leið og ég sá andlitin þeirra slakaði ég á. Það hafði góð áhrif að vita af fólkinu, sem mér þykir vænt um, styðja mig.“