„Þjóðhátíðarlag var eitt boxið sem átti eftir að tikka hjá okkur. Við höfum brallað margt í gegnum tíðina en þetta var ekki eitt af því,“ segir Guðmundur Jónsson, gítarleikari hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns. Hann semur þjóðhátíðarlagið í ár sem verður flutt á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina og Stefán Hilmarsson, söngvari hljómsveitarinnar, semur textann.
„Það eru sex lög sem liggja undir og menn eru með skiptar skoðanir, en við hljótum að leysa það um páskana,“ segir Guðmundur og hlær, og játar að Sálarmenn hafi hingað til ekki mikið verið í því að semja tækifærislög.
„Það er svolítið erfitt að gera lög fyrir eitthvað ákveðið tilefni. Maður þarf að setja sig í spes aðstæður,“ segir hann og heldur áfram: „Það er mjög sterk hefð fyrir þessari tónlist og mörg frábær lög sem hafa komið í gegnum tíðina, en á sama tíma mjög ólík. Við vildum fyrst og fremst gera lag sem við getum staðið tryggir á bakvið og er svolítið við.“
Sálin hans Jóns míns hefur spilað margoft á Þjóðhátíð, fyrst árið 1989 þegar hljómsveitin var aðeins eins árs, og síðast í fyrra. „Það er mjög gaman að spila þarna; stemningin er alveg einstök,“ segir Guðmundur.
Þá segist hann ekki efast um það að skoðanir á laginu verði mjög skiptar, enda mörgum sem þyki vænt um hátíðina. „Við munum bara henda þessu út og vona það besta,“ segir hann að lokum, en búast má við því að heyra lagið á næstu mánuðum.