Þegar þetta er skrifað hafa um 1.200 manns boðað komu sína í feluleik sem mun fara fram í IKEA á laugardaginn. Feluleikurinn fer þannig fram að fólk skiptir sér upp í hópa þar sem einn eða tveir úr hópnum „er‘ann“ og hinir fela sig einhvers staðar í búðinni.
Eins og fram kom í fyrri frétt mbl.is um málið er feluleikurinn ekki skipulagður af IKEA sem hefur þó ákveðið að gefa leiknum blessun sína með nokkrum skilyrðum.
Stranglega bannað verður að fela sig á lagernum þar sem slíkt býður hættunni heim. Eins verður stranglega bannað að fela sig í eða við neyðarútganga eða í kompum starfsfólks. Þá verður barnaveröldin Småland einnig lokuð felurum og þeir sem höfðu rennt hýru auga til boltalandsins geta gleymt slíkri gleði. Annars gildir almenn skynsemi og sá borgar sem brýtur.
Að þessu öllu sögðu er feluleikurinn að sjálfsögðu fullkomið tækifæri til að finna barnið í sér og eiga skemmtilega stund í fjölmennum hópi í einni stærstu verslun landsins. Mbl.is ákvað að taka forskot á sæluna og tók saman tíu (mis)góða felustaði í IKEA.