„Sagan segir frá borgarstráknum Tomma sem eltir kærustuna eitt sumar vestur á firði en hún er frá Ísafirði. Hann er á leiðinni í meistaranám um haustið og er svona að velta ýmsu fyrir sér. Kærastan reddar Tomma vinnu á golfvellinum í Bolungarvík, en hann fór vestur bara til þess að vera með henni yfir sumarið. Stuttu síðar er okkar manni „dömpað og þá er hann fastur í víkinni.“
Þetta segir kvikmyndagerðarmaðurinn Snævar Sölvason um nýjustu kvikmynd sína, Albatross. Er myndin stærsta verkefni þessa unga kvikmyndagerðamanns og er nú verið að fjármagna eftirvinnslu hennar með söfnun á Karolina fund.
Snævar segir að Tommi reyni að gera það besta úr aðstæðunum í Bolungarvík eftir að kærastan hættir með honum.
„Hann kynnist þarna samstarfsfélögum sínum sem eru litríkir karakterar. Yfirmaður þeirra heitir Kjartan og er leikinn af Pálma Gestssyni. Hann er mjög kröfuharður yfirmaður sem dreymir ekkert heitar en að halda stórmót á vellinum í Bolungarvík,“ segir Snævar en hann skrifaði handritið að myndinni. Hann segir að sagan byggist að vissu leyti á honum sjálfum.
„Sagan var alltaf klár þó ég væri ekki alltaf með handrit. Þetta er saga um mann á mínum aldri, kannski svona hálfpartinn „alter ego. Hann er pínu stefnulaus og ekki alveg búinn að finna sig. En í sögunni nær hann svona að greiða úr flækjum, skilja sjálfan sig og finna sína stefnu,“ segir Snævar.
„Hugmyndin að því að láta Tomma vinna á golfvellinum var nokkuð einföld. Ég sá fram á að hafa ekkert alvöru fjármagn til þess skjóta myndina enda er ég bara að stíga mín fyrstu skref sem kvikmyndagerðarmaður. Til þess að lágmarka kostnaðinn er gott að vera á einum stað og þá varð heimabærinn Bolungarvík að sjálfsögðu fyrir valinu. Þar var hægt að redda fólkinu ókeypis gistingu og mat úr kaupfélaginu og svona,“ segir Snævar. „Það var ekkert verið að sækja vatnið yfir lækinn hvað það varðar.“
Segir Snævar jafnframt að hann hafi langað að taka upp stóran hluta myndarinnar úti og að golfvöllurinn hafi boðið upp á það. „Bauð hann líka upp á mjög litríka atburðarás. Vinir mínir hafa unnið þarna mikið á sumrin og alltaf heyrði maður allskonar sögur og dót sem hafði gerst þarna þannig að mér fannst golfvöllurinn alveg fullkominn til þess að ná utan um kjarna myndarinnar.“
Var Albatross tekin upp sumarið 2013 og nú hafa aðstandendur myndarinnar sett upp söfnun hjá Karolina fund til þess að fjármagna eftirvinnslu hennar. „Við hófum söfnunina í síðustu viku og hún fór glæsilega af stað,“ segir Snævar. „Við fórum strax yfir 10% múrinn sem við vildum komast yfir með fyrra fallinu. Við höfðum talað við þá hjá Karlina fund sem sögðu okkur að ef verkefni byrja vel eru miklu meiri líkur á að menn klári,“ segir Snævar en nú hafa safnast um 15% af lokatakmarkinu sem eru 20 þúsund evrur eða þrjár milljónir króna.
„Við erum mjög bjartsýnir á að ná takmarkinu. Það er búið að klippa myndina og við erum komin með sýningavilyrði en Sena ætlar að dreifa myndinni. En fyrst þurfum við að klára hana svo að Sena geti tekið við henni,“ segir Snævar sem bætir við að þá þurfi ýmis atriði að vera meðhöndluð af fagmönnum. „Það þarf að klára ýmsar restar eins og hljóðvinnslu, tónlist og ýmislegt sem við höfðum ekki tækjabúnað eða aðstöðu í.“
Er Albatross stærsta verkefni Snævars en árið 2012 frumsýndi hann kvikmyndina Slay Masters á Bolungarvík. „Það var meira svona tilraunaverkefni áður en ég fór í kvikmyndanám þar sem ég gerði eiginlega allt sjálfur. Albatross er fyrsta alvöru myndin mín sem fer í almenna dreifingu.“
Snævar segist vona að myndin komist fljótlega í dreifingu. „Við stefnum að byrjun sumars. En auðvitað er það svolítið háð fjáröfluninni,“ segir hann að lokum.
Hér má styrkja eftirvinnslu myndarinnar á Karolina fund.
Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.